Eftir Kjartan Magnússon og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur:
ÞAÐ ER mikið fagnaðarefni fyrir íbúa og byggjendur í Úlfarsárdal að á fimmtudaginn var tekin skóflustunga að nýjum skóla, samreknum leik- og grunnskóla, sem áætlað er að taki til starfa haustið 2010. Breytt efnahagsástand hefur haft áhrif á hraða uppbyggingar í Úlfarsárdal og íbúar og tilvonandi íbúar eðlilega uggandi yfir málum. Eftir mikil samskipti okkar, embættismanna og íbúa, um hvernig hægt væri að búa að börnum í hverfinu og skapa mikilvægan samverustað íbúa varð samstaða um að leggja áherslu á að hefja byggingu á leikskóla fyrr en áætlað var og hefja rekstur samrekins leik- og grunnskóla í honum haustið 2010.
Samþætting og sveigjanleiki
Leikskólaráð- , menntaráð og íþrótta- og tómstundaráð lögðu því til, við framkvæmda- og eignaráð Reykjavíkurborgar, sameiginlega tillögu um að samrekinn leikskóli og grunnskóli fyrir 1.-4. bekk ásamt frístundaheimili taki til starfa í Úlfarsárdal. Í samrekstri skóla felast spennandi tækifæri í sveigjanleika á milli skólastiga og samþættingu skóla- og frístundastarfs. Í því skyni verður sem fyrst hafin bygging húsnæðis við Úlfarsbraut 118-120 sem hugsuð var sem framtíðarhúsnæði leikskóla í hverfinu. Á fyrsta starfsári skólans er reiknað með um 40-50 börnum á leikskólaaldri og svipuðum fjölda grunnskólabarna í 1.-4. bekk. Gert er ráð fyrir því að skólinn „eldist“ með börnunum, þ.e. árlega bætist við bekkur í skólann, jafnhliða því sem börnin verða eldri.
Spennandi hönnun
Skólahúsnæðið við Úlfarsbraut 118-120 er framtíðarhúsnæði leikskóla í hverfinu. Byggingin er hönnuð sem 5-6 deilda leikskóli á 5.350 m2 lóð eftir hönnunarsamkeppni. Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna er 460 milljónir króna. Við hönnun byggingarinnar var haft í huga að umhverfið gegnir stóru hlutverki í uppeldi og menntun barna. Umhverfið innan húss er því skipulagt með það í huga. Það umhverfi sem börnunum er boðið er í senn öruggt, hvetjandi, aðlaðandi, verndandi og fallegt. Rýmið er sveigjanlegt á þann hátt að hægt er að stækka og minnka það eftir þörfum. Einnig er hugsað fyrir mismunandi aldri barnanna og miðað við stærð þeirra og þarfir og hentar því einnig vel fyrir starfsemi yngstu bekkja grunnskóla.
Með ákvörðun uppbyggingar sameiginlegs húsnæðis nýtist fjármagn til varanlegrar uppbyggingar. Leikskólinn fer strax í endanlegt húsnæði og starfsemi grunnskólans verður á sama svæði og fyrirhugaður grunnskóli og íþróttasvæði. Til viðbótar við spennandi tækifæri í sveigjanleika milli skólastiga og samþættingu skóla- og frístundastarfs verður húsnæðið án efa fyrsti samkomustaður hverfisins og eykur þannig samskipti og samræðu íbúa um framtíðina í þessu fallega hverfi.
—
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 15. júní 2009.