Ásakanir þessar um villandi ummæli eru rangar og óskiljanlegar í ljósi þess að ég hef frá upphafi þessa ógæfumáls lagt mikla áherslu á að gera greinarmun á kostnaðaráætlun byggingarinnar annars vegar og heildargreiðslum afborgana og vaxta á lánstíma hins vegar, þ.e. heildarskuldbindingu skattgreiðenda vegna verksins. Þegar ég, árið 2004, greiddi atkvæði gegn umræddum byggingarframkvæmdum, einn kjörinna fulltrúa, hafði ég m.a. til hliðsjónar miklar umræður, sem þá höfðu átt sér stað á vettvangi sveitarstjórna í Danmörku og víðar, um kosti og galla svokallaðrar einkaframkvæmdar. Þær umræður höfðu þá þegar m.a. leitt í ljós að kjörnir fulltrúar höfðu freistast til að misnota kosti einkaframkvæmdar til að auka lántöku sveitarfélaga vegna stórframkvæmda langt umfram það sem eðlilegt gat talist. Niðurstaðan var sú að stjórnmálamenn yrðu ekki síður að horfa til áætlaðra heildarskuldbindinga skattgreiðenda vegna opinberra byggingarframkvæmda en kostnaðaráætlana, sem hafa oft reynst heldur bjartsýnar hérlendis, svo ekki sé meira sagt.
Því miður hafa sumir baráttumenn fyrir byggingu tónlistarhússins ætíð viljað gera lítið úr hinum mikla vaxta- og fjármagnskostnaði vegna framkvæmdarinnar og jafnvel orðið þykkjuþungir þegar minnst hefur verið á slíkt. Er furðulegt að nú skuli tveir embættismenn opinbers fyrirtækis ráðast fram á ritvöllinn og saka undirritaðan um að gefa Kastljósi villandi upplýsingar þegar heildarkostnaður verksins er dreginn fram. Ítrekað skal að þegar farið er yfir umræddan Kastljósþátt, kemur skýrt fram að undirritaður gerir skýran greinarmun á kostnaði vegna byggingar sjálfs hússins og heildarskuldbindingu vegna alls verkefnisins. Í þættinum segir orðrétt: ,,Kjartan Magnússon borgarfulltrúi vill meina að þetta þýði að heildarskuldbindingar ríkis og borgar vegna tónlistarhússins næstu 35 árin nemi þá alls um 30. milljörðum. Kjartan hefur gagnrýnt framkvæmdir við tónlistarhúsið frá upphafi, einn borgarfulltrúa.“
Ég tel að gera verði þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir hugsi um langtímahagsmuni umbjóðenda sinna. Afar varlega þarf að fara í að samþykkja dýr verkefni og velta kostnaðinum við þau yfir á komandi kynslóðir eins og því miður gerðist þegar samþykkt var að ráðast í byggingu tónlistarhússins árið 2004. Það er lágmark að þeir sem bera ábyrgð á þeirri framkvæmd, embættismenn sem kjörnir fulltrúar, viðurkenni þann gífurlega vaxta- og fjármagnskostnað sem skattgreiðendur framtíðarinnar munu þurfa að bera vegna þessarar feikidýru framkvæmdar. Hvernig eiga Íslendingar að læra af þeim mistökum fortíðar, sem fólust í ofurskuldsetningu þjóðarinnar, ef menn kjósa að einblína á kostnaðaráætlanir en neita að horfast í augu við þau fjármagnsgjöld sem fylgja einkaframkvæmdum?
—
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 28. júní 2009.