Skip to content

896 2605

kjartanmagg@gmail.com

Kjartan Magnússon

Frumkvæði, þekking og reynsla

  • Greinar
    • Blaðagreinar
    • Borgarmál
    • Fjölmiðlar
    • Íþróttir
    • Menning
    • Ræskingar
    • Stjórnmál
  • Greinar
    • Blaðagreinar
    • Borgarmál
    • Fjölmiðlar
    • Íþróttir
    • Menning
    • Ræskingar
    • Stjórnmál

Glæsileg knattspyrnuhátíð í Reykjavík

júlí 27, 2009júlí 31, 2009 Kjartan MagnússonBlaðagreinar, Borgarmál, ÍþróttirTagged fótbolti, Íþrótta- og tómstundaráð, Íþróttir, Reykjavík

Laugardalurinn iðaði af lífi og fjöri um síðustu helgi þegar ReyCup knattspyrnumótið fór þar fram í áttunda sinn. Mótið hefur orðið fjölmennara og glæsilegra með ári hverju og er nú orðið stærsta einstaka knattspyrnumót á Íslandi. Rúmlega 1.600 unglingar í 105 keppnisliðum tóku nú þátt í mótinu. Ánægjulegt er hve mörg lið utan Reykjavíkur tóku þátt í keppninni en metþátttaka var af landsbyggðinni auk liða frá Danmörku, Englandi og Færeyjum.

07 Vestur fagnar verðskulduðum sigri.
Sigri hrósað.

Mikilvægt er að íþróttafélög haldi úti þróttmiklu og metnaðarfullu starfi fyrir börn og unglinga þrátt fyrir versnandi efnahagsástand. Gaman hefur verið að fylgjast með velheppnuðum knattspyrnumótum víðs vegar um landið í sumar, t.d. á Akranesi, Akureyri, í Vestmannaeyjum og nú síðast í Reykjavík.

ReyCup er einn af hápunktum ársins hjá ungum knattspyrnuiðkendum í 3. og 4. flokki pilta og stúlkna eða á aldrinum 13-16 ára. Eftir því sem unglingarnir okkar fá fleiri tækifæri til að finna kröftum sínum viðnám í krefjandi keppni, er líklegra að það dragi úr brottfalli þessa aldurshóps úr íþróttum. Ungmennin takast á í heilbrigðri keppni og mynda ný vinatengsl. Samvinna, keppni, sigurgleði og vonbrigði blandast saman svo úr verður mikil og góð upplifun fyrir ungt keppnisfólk.

ReyCup er haldið af Knattspyrnufélaginu Þrótti með stuðningi Reykjavíkurborgar. Þróttarar annast sjálft mótshaldið en Reykjavíkurborg útvegar knattspyrnuvelli og aðra aðstöðu, t.d. fimm grunnskóla undir gistingu ásamt aðgangi að sundlaugum og Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Hugmyndin að mótshaldinu kviknaði árið 2001 meðal bjartsýnisfólks í foreldrastarfi Þróttar. Rætt var um að þörf væri á metnaðarfullu móti fyrir 13-16 ára aldurinn og að Laugardalurinn væri tilvalinn mótsstaður. Sumir töldu að um óhóflega bjartsýni væri að ræða en fyrsta mótið var haldið sumarið eftir og nú er það orðið að árvissum viðburði í borgarlífinu.

Mikill metnaður einkennir mótshaldið og mestur hluti vinnunnar er inntur af hendi í sjálfboðaliðavinnu af hinum öfluga foreldrahópi í Þrótti. Fyrir hönd íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur vil ég sérstaklega þakka þessum harðsnúna hópi fyrir vel unnin störf í þágu æskulýðsmála í Reykjavík. Einnig óska ég aðstandendum Reycup sem og öllum keppendum til hamingju með vel heppnað mót með von um að þeir haldi áfram að þroska hæfileika sína og efla líkamshreysti á vettvangi íþrótta.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu hinn 27.vii.2009.)

Leiðarkerfi færslu

Fyrri: Rangfærslur vegna ummæla um tónlistarhús leiðréttar
Næsta: Góða umferðarhelgi!

Skildu eftir svar

Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.

Síðustu færslur

  • Kærar þakkir fyrir gott prófkjör
  • Minnkum báknið – Fækkum borgarfulltrúum
  • Ég bið um 2. sæti

Efnisflokkar

  • Blaðagreinar
  • Borgarmál
  • Fjölmiðlar
  • Hverfi
  • Íþróttir
  • Menning
  • Óflokkað
  • Ræskingar
  • Stjórnmál
Kjartan Magnússon í 2. sætið í Reykjavík 2022