Skip to content

896 2605

kjartanmagg@gmail.com

Kjartan Magnússon

Frumkvæði, þekking og reynsla

  • Greinar
    • Blaðagreinar
    • Borgarmál
    • Fjölmiðlar
    • Íþróttir
    • Menning
    • Ræskingar
    • Stjórnmál
  • Greinar
    • Blaðagreinar
    • Borgarmál
    • Fjölmiðlar
    • Íþróttir
    • Menning
    • Ræskingar
    • Stjórnmál

Góða umferðarhelgi!

júlí 30, 2009júlí 31, 2009 Kjartan MagnússonBlaðagreinarTagged hraðakstur, samgöngur, slys, umferð, umferðaröryggi, verslunarmannahelgi

Mikil umferð hefur verið um þjóðvegi landsins í sumar enda kjósa margir að ferðast innanlands vegna versnandi efnahags. Við upphaf mestu umferðarhelgi ársins er, í varnaðarskyni, rétt að minna á helstu orsakir banaslysa. Hver og einn getur farið yfir þessi atriði og metið með sjálfum sér hvort hann þurfi að breyta aksturslagi sínu. Auk banaslysa, valda eftirfarandi þættir fjölda annarra slysa og miklu eignatjóni í umferðinni:

  • Hraðakstur.
  • Bílbelti ekki notað.
  • Ölvunarakstur.
  • Svefn og þreyta.
  • Reynsluleysi ökumanns.
  • Forgangur ekki virtur.
  • Vegur og umhverfi.

Orsakir banaslysa tengjast oftast ákveðinni áhættuhegðun ökumanns eða mannlegum mistökum hans. Samkvæmt ársskýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa hefur banaslysum í umferðinni fækkað verulega á síðastliðnum árum ef slysaárið 2006 er undanskilið. Síðastliðin fimm ár (2004-2008) fórust 100 manns í umferðarslysum á Íslandi en 129 manns á árunum fimm þar á undan (1999-2003).

Þrátt fyrir að umferðarslysum hafi fækkað verulega frá árinu 2006, hefur alvarlegum umferðarslysum því miður fjölgað. Í slysaskrá Umferðarstofu eru128 umferðarslys skráð með miklum meiðslum árið 2006 en 164 árið 2008. Bifhjólaslysum og framan-árekstrum bifreiða fjölgaði mest.

Bílbeltin bjarga mannslífum

Rannsóknarnefndin telur líklegt að á árunum 1998-2008 hefðu 43 ökumenn og farþegar lifað af slys, hefðu þeir verið svo forsjálir að nota bílbelti. Í mörgum tilvikum kastast fólk út úr ökutækjum eftir veltur og bíður bana eða stórslasast vegna höfuðáverka, sem hljótast af harðri lendingu við jörð eða þegar ökutækið veltur yfir það. Þau dæmi eru sorglega mörg þar sem sjálf bílgrindin og farþegarýmið þola áreksturinn en fólk lætur lífið þar sem bílbelti voru ekki spennt. Afar mikilvægt er að bílbelti séu bæði notuð af ökumanni og öllum farþegum hvort sem þeir sitja í fram- eða aftursæti.

Varhugaverðir malarvegir

Aldrei er nægilega brýnt fyrir vegfarendum að sýna sérstaka varúð þegar ekið er eftir malarvegum, einkum þegar komið er inn á slíka vegarkafla af malbiki. Á slíkum vegum er enn mikilvægara en ella að hægt sé á bifreiðum þegar þær mætast vegna grjótkasts og rykmengunar. Af sömu ástæðu er mjög mikilvægt að menn hægi verulega á sér þegar ekið er framhjá gangandi eða hjólandi vegfarendum á malarvegum.

Um leið og hvatt er til aðgæslu í umferðinni minni ég á ellefu hundruð ára gamalt spakmæli Skallagríms Kveldúlfssonar, sem enn er í fullu gildi: „Gott er heilum vagni heim að aka.“

(Grein þessi birtist í Fréttablaðinu, 30.vii.2009.)

Leiðarkerfi færslu

Fyrri: Glæsileg knattspyrnuhátíð í Reykjavík
Næsta: Óviðunandi IceSave samningur

Skildu eftir svar

Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.

Síðustu færslur

  • Kærar þakkir fyrir gott prófkjör
  • Minnkum báknið – Fækkum borgarfulltrúum
  • Ég bið um 2. sæti

Efnisflokkar

  • Blaðagreinar
  • Borgarmál
  • Fjölmiðlar
  • Hverfi
  • Íþróttir
  • Menning
  • Óflokkað
  • Ræskingar
  • Stjórnmál
Kjartan Magnússon í 2. sætið í Reykjavík 2022