Í bítið var ég í morgunþætti Bylgjunnar hjá þeim Kolbrúnu Björnsdóttur og Heimi Karlssyni og ræddi ásamt Þorleifi Gunnlaugssyni borgarfulltrúa um tilboð Magma Energy í hluti Orkuveitu Reykjavíkur og Hafnarfjarðarbæjar í Hitaveitu Suðurnesja (HS). Ég skýrði af hverju öll rök hníga að því að Orkuveitan selji hlut sinn í HS. Í fyrsta lagi hafa samkeppnisyfirvöld úrskurðað að OR megi ekki eiga meira en 10% í HS og hefur OR fengið frest til áramóta til að lækka hlut sinn í samræmi við það. Að sjálfsögðu kemur ekki annað til greina en OR fari eftir úrskurði samkeppnisyfirvalda, verði það ekki gert gæti OR verið dæmd til greiðslu sekta auk þess sem fyrirtækið yrði fyrir álitshnekki ef það hundsaði úrskurðinn. Í annan stað er ljóst að ,,praktískar” forsendur OR fyrir kaupum á hlutabréfum í HS eru brostnar og því engin ástæða fyrir OR að vera með bundið fé í fyrirtæki, sem tengist ekki megintilgangi þess með beinum hætti.
Fyrir tveimur árum lögðust borgarfulltrúar VG, gegn því að Orkuveitan keypti hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Nú leggjast borgarfulltrúar VG gegn því að sami hlutur verði seldur frá OR. Í þættinum benti ég á að söluferlið hefði verið opið og að ríkisstjórninni væri, eins og öðrum, frjálst að bjóða í hlutinn ef hún teldi mikilvægt að hann yrði ekki seldur til einkaaðila. Þáttastjórnendur gripu þetta á lofti og spurðu Þorleif hvort hann myndi ekki beita sér í málinu gagnvart flokksbræðrum sínum í ríkisstjórn. Hann sagðist myndu gera það og veit ég ekki betur en að síðar um daginn hafi hjólin farið að snúast hvað það varðar.
Fróðleg Pisa ráðstefna
Eftir þáttinn sótti ég norrænu Pisa-ráðstefnuna á Grand hóteli. Ástæða er til að hrósa aðstandendum fyrir þarft framtak og þakka þeim fyrir vel heppnaða ráðstefnu þar sem lagðar voru fram afar mikilvægar upplýsingar um stöðu menntamála á Norðurlöndum. Þessar upplýsingar eru gott framlag til opinskárra umræðna, sem þurfa að eiga sér stað um íslenskt menntakerfi og hvernig eigi að bæta það.
Ný vatnsrennibraut opnuð
Ánægjulegt var að opna nýja vatnsrennibraut í Laugardalslaug síðdegis með því að klippa á borða um leið og vatninu var hleypt á og kátir krakkar renndu sér út í laugina með ósvikinni gleði. Rennibrautin er 80 metra löng, lokuð alla leið með ljósastýringu. Gamla rennibrautin var lengi vel hin eina í Reykjavík og hafði mikið aðdráttarafl fyrir yngstu kynslóðina. Eftir að gamla laugin eyðilagðist í fyrrasumar, hafa margir beðið þess með óþreyju að hin nýja kæmi og sá draumur rættist í dag.
Bókasafn Þórðar Björnssonar varðveitt í Borgarskjalasafni
Klukkan þrjú var ég viðstaddur athöfn í Borgarskjalasafni Reykjavíkur þar sem Guðfinna Guðmundsdóttir, ekkja Þórðar Björnssonar, afhenti safninu stórmerkilegt bókasafn Þórðar til varðveislu.
Þórður var bæjarfulltrúi í Reykjavík í þrjú kjörtímabil, 1950-62. Lengstan hluta starfsævinnar eða 33 ár, vann hann hjá Sakadómi Reykjavíkur, fyrst sem fulltrúi, síðan sem sakadómari og loks sem yfirsakadómari áður en hann var skipaður ríkissaksóknari. Þórður vann því mikið starf í þágu Reykvíkinga og varði drjúgum hluta launa sinna og frítíma til bókasöfnunar, sem hann vildi að Reykjavíkurborg eignaðist eftir sinn dag.
Þórður sérhæfði sig í söfnun bóka, sem tengdust Reykjavík og Íslandi og er safnið eitt merkasta, ef ekki merkasta bókasafn landsins með ferðalýsingum útlendinga um Reykjavík frá 18. og 19. öld. Alls eru 2.150 bækur eftir erlenda höfunda í safninu, sem fjalla allar um Ísland og þar með Reykjavík. Í safninu eru einnig átján gömul kort af Íslandi auk úrklippusafns úr erlendum blöðum þar sem fjallað er um málefni Íslands.
Guðfinna hefur tölvuskráð allt safnið eftir andlát Þórðar, merkt hverja bók með bókamerki í nafni Þórðar og prentað bókaskrá með formála eftir Braga Kristjónsson fornbókasala.
Það voru einmitt þeir fornbóka-feðgar, Bragi og Ari Gísli, sem höfðu samband við mig árið 2007 til að kanna hug Reykjavíkurborgar til að taka við bókasafni Þórðar til varðveislu en ég var þá formaður menningar- og ferðamálaráðs. Eftir að hafa heimsótt frú Guðfinnu í október 2007 og skoðað safnið ásamt Jóhannesi Bárðarsyni, fulltrúa framsóknarmanna í ráðinu, vorum við Jóhannes sammála um að mikilvægt væri að tryggja varðveislu safnsins og tryggja fræðimönnum og grúskurum framtíðarinnar aðgang að því. Skömmu síðar lét ég af starfi formanns menningar- og ferðamálaráðs en reyndi þó að þoka málinu áfram eftir mætti. Það var því afar ánægjulegt fyrir mig að vera viðstaddur hátíðlega athöfn í Borgarskjalasafninu þegar frú Guðfinna afhenti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra safnið með formlegum hætti. Við sama tilefni var opnuð sýning á hluta bókasafns Þórðar ásamt ýmsum skjölum. Sýningin verður opin í einn mánuð og er í senn fróðleg og skemmtileg.
Fjölmennt borgarskákmót
Síðdegis setti ég 24. borgarskákmótið í Ráðhúsinu og lék fyrsta leikinn. Reykjavíkurfélögin Taflfélagið Hellir og Taflfélag Reykjavíkur standa fyrir mótshaldinu en það var fyrst haldið 18. ágúst 1986 í tilefni 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar. Vel var staðið að mótinu og skemmtilegt að fylgjast með því. Rúmlega áttatíu manns voru skráðir til keppni, sem er betri þátttaka en mörg undanfarin ár. Mótið styrkti þá tilfinningu mína að áhugi á skák fari vaxandi og Reykjavík færist nær því takmarki að verða skákhöfuðborg heimsins.
Vel heppnuð íbúahátíð í Vesturbæ
Undir kvöld sótti ég fjölmenna íbúahátíð í Vesturbænum, á leiksvæðinu milli Tómasarhaga, Grímshaga, Suðurgötu og Lynghaga. Var þar m.a. kynnt þriggja ára þróunarverkefni, sem felur m.a. í sér aukna þátttöku og ábyrgð íbúa vegna umsjónar leikvallarins við Lynghaga. Hverfisráð Vesturbæjar, Vináttufélagið Grímur og umhverfisráð Reykjavíkurborgar stóðu að hátíðinni sem fór hið besta fram.
Góð uppskera í skólagörðum
Í hádeginu og um kvöldið fór ég í skólagarðana í Litla Skerjafirði og hjálpaði Snæfríði dóttur minni að taka upp kartöflur, kál og fleira góðgæti, sem hún hefur ræktað þar í sumar. Frábært er að sjá hvernig skólagarðar borgarinnar hafa blómstrað í sumar og þar hefur fengist góð uppskera í margvíslegum skilningi. Afar margt jákvætt felst í því að gefa börnunum tækifæri til að rækta grænmeti og plöntur, sem hlúa þarf að svo vel fari. Í lokin njóta þau ávaxta erfiðisins og stór hluti ánægjunnar er að fara heim með uppskeruna og færa björg í bú. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður umhverfis- og samgönguráðs, á heiður skilinn fyrir að hafa beitt sér fyrir því að skólagörðum fyrir börn og matjurtagörðum fyrir fullorðna var stórfjölgað í sumar og fleirum en áður var þannig gefinn kostur á að rækta garðinn sinn. Garðyrkjustjóra og starfsfólki hans eru færðar bestu þakkir fyrir vel unnin störf og góða þjónustu í görðunum í sumar.