
Reykjavíkurmaraþon fór fram í dag þegar 11.487 þátttakendur hlupu um götur borgarinnar og var um metþátttöku að ræða. Maraþonið fór nú fram í 26. sinn og hefur fest sig í sessi sem einn helsti íþróttaviðburður landsins. Ánægjulegt er að sjá hve margir koma utan af landi og frá útlöndum, gagngert til að taka þátt í hlaupinu. Skipuleggjendur maraþonsins leggja sig fram um að bjóða hlaup og heilbrigða áreynslu við hæfi allra, þeir sem hlaupa ekki hálft eða heilt maraþon, geta hlaupið tíu kílómetra, þrjá kílómetra, nú eða bara tekið þátt í hinu bráðskemmtilega Latabæjarmaraþoni, sem er enn styttra. Ég hef aldrei skynjað það jafnsterkt í nokkru íþróttamóti eins og Reykjavíkurmaraþoni, að aðalatriðið er að vera með og skemmta sér.
Stemmningin sem myndast þegar þúsundir hlaupara þjóta af stað eftir Lækjargötunni er einstök. Sumir keppa einbeittir að ákveðnu markmiði og láta ekkert trufla sig, aðrir spjalla saman á leiðinni og gera að gamni sínu eins og þeir væru í heita pottinum. Þegar komið er á leiðarenda eru allir sigurvegarar og margir ánægðir með sjálfa sig fyrir að hafa drifið sig í hlaupið og ekki síður fyrir æfingarnar um sumarið.
Mörg undanfarin ár hef ég skokkað á sumrin mér til ánægju og hæfilegrar áreynslu. Það kann að hljóma sem þversögn en mér finnst afslappandi að hlaupa, ekki síst ef mikið er að gera í vinnunni. Fyrstu árin hljóp ég tíu kílómetrana en árið 2000 hljóp ég í fyrsta sinn hálfmaraþon, þegar ég tók þátt í Brúarhlaupinu við vígslu Eyrarsundsbrúarinnar, sem tengir Danmörku og Svíþjóð. Nokkrum sinnum hef ég tekið þátt í skemmtilegum hlaupum úti á landi, t.d. í Jökulsárhlaupinu frá Dettifossi í Ásbyrgi og í Vesturgötuhlaupinu, sem hlaupið er í ægifögru landslagi milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hálfmaraþon sé hæfileg vegalengd fyrir mig en vissulega hefur mig langað til að reyna heilmaraþon, 42 kílómetra, þótt það væri ekki nema einu sinni. Nú ákvað ég að láta á það reyna þótt ég hefði vissulega viljað hafa meiri tíma í sumar til æfinga fyrir svo langt hlaup.
Í stuttu máli sagt þá gekk hlaupið ágætlega og ég hljóp vegalengdina á rúmum fjórum klukkustundum, 4:09:42. Gaman er að skokka um borgina í góðu veðri og maður fær nægan tíma til margvíslegra hugsana. Eftir rúma þrjátíu kílómetra fór ég að þreytast, eftir 36 kílómetra hægði ég verulega á mér og urðu síðustu sex kílómetrarnir erfiðir. Rétt áður en ég kom í mark tók Gunnlaugur Júlíusson kurteislega fram úr mér, sem mér fannst í sjálfu sér heiður fyrir mig. Ég gladdist innra með mér yfir því að ég skyldi ná þeim árangri að koma á svipuðum tíma í mark og þessi hrausti ofurhlaupari. Ég vissi ekki þá að Gunnlaugur hafði vaknað fyrr en ég um morguninn og hlaupið heilt maraþon áður en hann kom og tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu með okkur hinum, sem sváfum út. Gunnlagur var því að koma í mark eftir 84 kílómetra morgunhlaup. Já, sæll.
Mögnuð menningarnótt
Það tekur tíma að jafna sig eftir maraþonhlaup en undir kvöldmat brölti ég á fætur og hélt niður í bæ á vit menningarnætur. Miðbærinn var að sjálfsögðu fullur af fólki sem skemmti sér vel enda fjölmörg skemmtiatriði í boði við allra hæfi. Árborg var gestasveitarfélag menningarnætur að þessu sinni og var metnaðarfull dagskrá á vegum þess í Tjarnarsal Ráðhússins. Að vanda lauk skipulagðri dagskrá með glæsilegri flugeldasýningu í boði Orkuveitunnar um klukkan ellefu. Eftir sýninguna hélt ég heimleiðis ásamt börnum mínum, Snæfríði og Magnúsi, en greinilegt var þegar við fórum í gegnum Miðbæinn að hjá mörgum var hátíðin rétt að byrja.