Ég var í hópi þeirra sem heilsuðu nýju ári með hressandi sjósundi í Nauthólsvík í morgun. Áður hef ég nokkrum sinnum tekið sundtökin í íslenskum fjallavötnum eða í sjónum við Ísland að sumarlagi og fundist nóg um kuldann þótt sundið hafi vissulega verið afar hressandi. Ég kveið því svolítið fyrir því að kasta mér til sunds í Nauthólsvík að morgni nýársdags, ekki síst þegar mér var tjáð að sjávarhitinn væri -1,7°C. Þegar út í var komið, fannst mér tilfinningin vera svipuð og að stinga sér í sjóinn að sumarlagi þótt sjórinn hafi auðvitað verið mun kaldari nú. Ef til vill sótti ég styrk í þá vitneskju að strax að loknu sundi, biði mín heitur pottur við þjónustumiðstöð Ylstrandarinnar í Nauthólsvík.
Að loknu nýárssundi sat ég fjölmennan stofnfund Sjósund- og sjóbaðfélags Reykjavíkur í veitingastaðnum Rúbín í Öskjuhlíð. Aðalmarkmið félagsins er að efla og stuðla að betri aðstöðu til sjósunds og sjóbaða í Nauthólsvík. Benedikt Hjartarson sundkappi er fyrsti formaður félagsins og Árni Þór Árnason varaformaður.
Gagnlegar umræður urðu á stofnfundinum um hagsmunamál félagsins og var þar ýmsum ábendingum komið á framfæri um bætta aðstöðu sem og hugmyndum um framtíðarþróun svæðisins. Í ávarpi fagnaði ég stofnun félagsins og flutti því góðar óskir frá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur, sem sér um rekstur Ylstrandarinnar og þjónustumiðstöðvarinnar þar. Greindi ég frá því að hugmyndir þær, sem komu fram á fundinum, yrðu teknar til umfjöllunar á vettvangi Íþrótta- og tómstundaráðs.