Í umræðum fyrir borgarstjórnarkosningar sl. vor var það almennt viðhorf að vel hefði verið haldið á fjármálum Reykjavíkurborgar kjörtímabilið 2006-10 og að staða borgarsjóðs væri góð. Umræður snerust því öðru fremur um hvernig tryggja ætti áframahaldandi góða fjárhagsstöðu. Nú er lögleyft hámarksútsvar 13,28% af launatekjum en á síðasta kjörtímabili var sú stefna mörkuð undir forystu sjálfstæðismanna í borgarstjórn að miða ekki við það hámark heldur 13,03%.
Í því sambandi voru frambjóðendur oft spurðir um það í fjölmiðlum og á kosningafundum sl. vor hvort nauðsynlegt yrði að hækka útsvar og aðrar álögur á Reykvíkinga á nýju kjörtímabili.
Athyglisvert er að sjá hvernig oddvitar stjórnmálaflokkanna svöruðu þessum spurningum í kosningabaráttunni.
- Sjálfstæðisflokkurinn hvikaði ekki frá þeirri stefnu að útsvarsprósentan skyldi ekki hækkuð. Flokkurinn fékk fimm borgarfulltrúa kjörna.
- Vinstri græn hvikuðu ekki frá þeirri stefnu sinni að útsvarsprósentan skyldi ætíð vera í hámarki. Framboðið kom einum borgarfulltrúa að.
- Samfylkingin svaraði út og suður og þar með var ljóst að flokkurinn stæði við fyrri stefnu um að útsvarsprósentan skyldi hækkuð. Flokkurinn fékk þrjá borgarfulltrúa.
- Besti flokkurinn lofaði því að hækka ekki útsvarsprósentuna og oddviti hans, Jón Gnarr, bætti um betur og var eina borgarstjóraefnið, sem sagði vafningalaust að hann vildi beinlínis lækka hana. Flokkurinn fékk sex borgarfulltrúa kjörna og var ótvíræður sigurvegari kosninganna.
Vilji kjósenda var skýr: Þeir flokkar, sem vildu hækka útsvarið, fengu 26% fylgi og fjóra borgarfulltrúa kjörna. Þeir flokkar, sem vildu ekki hækka útsvarið fengu 68% fylgi og ellefu fulltrúa kjörna.
Það tók borgarfulltrúa Samfylkingarinnar aðeins nokkra mánuði að heilaþvo óreynt borgarstjórnarlið Besta flokksins og sannfæra þá um að bráðnauðsynlegt væri að færa meira fé frá fólkinu til Kerfisins. Meirihluti þessara flokka hefur nú samþykkt hækkun útsvarsprósentunnar og þannig brotið vilja mikils meirihluta Reykvíkinga á bak aftur. Vinstri meirihlutinn í Reykjavík lítur greinilega á skattgreiðendur sem auðlind, er nýta eigi til hins ýtrasta.
Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu 6. desember 2010.