Allt frá því fyrrverandi forstjóra Orkuveitunnar var vikið úr starfi 17. ágúst sl., hefur undirritaður lagt þunga áherslu á að óvissu um yfirstjórn þess verði eytt og framtíðarforstjóri ráðinn án tafar, m.a. vegna stöðu fyrirtækisins. Í mikilvægum viðræðum um endurfjármögnun lána skiptir miklu máli að viðsemjendum sé ljóst hver framtíðarforstjóri sé og hvaða stefnu hann fylgir. Þrátt fyrir fyrirheit um að rösklega yrði gengið til verks, hefur meirihluti stjórnar framlengt óvissu um yfirstjórn fyrirtækisins úr hömlu.
Pólitískur forstjóri velur eftirmann
Ráðning núverandi bráðabirgðaforstjóra var pólitísk og á ábyrgð Samfylkingar og Besta flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Starfið var ekki auglýst til umsóknar og ekkert hæfnismat átti sér stað. Í starfið var ráðinn vinur starfandi stjórnarformanns og viðskiptafélagi föður hans. Forstjórinn getur því hvorki talist hlutlaus né óháður og því ekki við hæfi að hann komi að vali umsækjenda fyrir hönd fjölskipaðrar stjórnar Orkuveitunnar eins og meirihluti stjórnar vill af einhverjum ástæðum viðhafa í þessu tilviki. Þá er það fáheyrt ef ekki óþekkt að forstjóri opinbers fyrirtækis sé í lykilhlutverki við val á eftirmanni sínum.Samkvæmt lögum er það stjórn OR, sem ræður forstjóra fyrirtækisins. Stjórnarmönnum ber því skylda til að kynna sér gögn um alla umsækjendur og vera vel inni í ráðningarferli á öllum stigum málsins. Hingað til hefur engum upplýsingum um umsækjendur verið dreift til stjórnarmanna heldur látið nægja að birta nafnalista á tjaldi. Kjörnum fulltrúum er þannig haldið frá mikilvægum hluta ferlisins á meðan fráfarandi forstjóri fer yfir umsóknir og kallar umsækjendur í viðtöl ásamt utanaðkomandi ráðgjafa. Stjórnarmenn geti vart tekið upplýsta og vel rökstudda ákvörðun með svo litlar grundvallarupplýsingar í höndunum. Ekki verður heldur séð að stjórnarmönnum sé heimilt að framselja slíkt vald til aðila utan stjórnar í jafn miklum mæli og hér virðist að stefnt auk þess sem stjórn hefur ekki samþykkt viðhlítandi umboð þar að lútandi. Því er ljóst að mikið vantar á að umrætt ráðningarferli sé faglegt, gagnsætt og jafnvel löglegt.
—
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. janúar 2011.