Almennt er viðurkennt að mikið gæfuspor var stigið þegar Íslendingar höfnuðu síðasta Icesave-samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir rúmu ári. Margir hinir sömu og mæltu óhikað með þeim samningi og sögðu að allt færi hér norður og niður ef hann yrði ekki samþykktur mæla nú af sama ákafa með nýjasta samningnum.
Gengisóvissa og viðskiptaáhætta
Eftir því sem samningurinn er gaumgæfður, kemur æ betur fram hve mikil óvissa myndi fylgja því fyrir okkur Íslendinga að taka á okkur slíkar greiðsluskyldur. Enginn veit hver endanleg útgjöld íslenskra skattgreiðenda yrðu vegna samningsins, kostnaðurinn gæti hlaupið á tugum eða hundruðum milljarða. Það fer m.a. eftir gengissveiflum og hve mikið fæst fyrir eignir Landsbankans. Með jái er því ekki aðeins verið að taka gengisáhættu heldur einnig viðskiptaáhættu. Ætla mætti að lærdómur síðustu ára væri sá að öll slík áhætta sé lágmörkuð eins og kostur er, hvort sem er hjá hinu opinbera eða í heimilisrekstri.
Deila má um hvort það standist lög að ríkið taki á sig greiðsluskuldbindingu, sem felur í sér jafn mikla óvissu og Icesave. Höfundar stjórnarskrárinnar höfðu sennilega ekki hugmyndaflug til að ímynda sér að nokkurn tímann yrði samþykkt lagafrumvarp, sem legði greiðsluskyldu á ríkissjóð með óvissu er næmi hundruðum milljarða króna, annars hefði líklega verið girt fyrir slíkan möguleika.
Bretar og Hollendingar greiddu út Icesave á eigin ábyrgð í þeim tilgangi að verja eigin bankakerfi falli. Þetta gerðu þeir án samráðs við Íslendinga en ákváðu síðan að reynandi væri að senda íslenskum skattgreiðendum reikninginn. Reynt var að kúga Íslendinga til hlýðni með aðferðum, sem eiga ekki að þekkjast í samskiptum siðmenntaðra þjóða. Bretar beittu hryðjuverkalögum og forsætisráðherra þeirra gaf yfirlýsingar, sem voru til þess ætlaðar að skaða hagsmuni okkar. Bretar og Hollendingar axla enga ábyrgð vegna samningsins og taka litla áhættu vegna hans. Þeir fá höfuðstól meintra skulda greiddan með vöxtum auk kostnaðar við útgreiðslu. Ótrúlegt er að íslenska ríkisstjórnin sé svo aum að hún lyppist niður gagnvart vafasömum kröfum í stað þess að fara með málið fyrir dómstóla. Flest bendir til þess að Íslendingar þurfi ekki að óttast málalyktir fyrir alþjóðlegum dómstóli. Það vita Bretar og Hollendingar og þess vegna forðast þeir dómstólaleiðina.
Hvaða skatta á að hækka?
Ríkisstjórnin vill samþykkja Icesave-greiðslur úr tómum ríkissjóði án þess að gera grein fyrir því hvernig eigi að fjármagna þær. Engin svör hafa verið gefin við þeirri spurningu hvaða skatta eigi að hækka eða hvaða opinbera þjónustu eigi að skera niður til að standa straum af Icesave. Reynslan af ríkisstjórninni sýnir að hún telur ráðið við hverjum vanda vera að auka skatta og aðrar opinberar álögur. Þegar fólk fær atkvæðaseðil í hendur á laugardaginn ætti það að hafa í huga að með jái mun sá seðill breytast í skattseðil. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar reyna að afsaka eigin getuleysi með því að endurtaka í sífellu að óleyst Icesave-mál standi í vegi fyrir efnahagslegum bata. Slíkur málflutningur er ótrúverðugur enda ljóst að það leysir engan vanda að ríkissjóður taki á sig tugi eða hundruð milljarða í nýjar skuldbindingar. Íslendingar þurfa umfram allt nýja ríkisstjórn og nýja stjórnarstefnu til að auka verðmætasköpun í atvinnulífinu. Verði Icesave samþykkt er ekki spurning að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna mun túlka slík úrslit sem mikla traustsyfirlýsingu við sig.
Á laugardag mun þjóðin ekki síst greiða atkvæði um mikilvæg grundvallaratriði, þ.e. hvort gera eigi almenning ábyrgan fyrir því að viðskiptaævintýri einkaaðila endaði illa. Með því að fallast á slíkt væri farið gegn siðferði og réttlæti sem og gegn grundvallaratriðum í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Skal að lokum vísað til samþykktar síðasta landsfundar flokksins um þetta mál: Sjálfstæðisflokkurinn hafnar alfarið löglausum kröfum Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum í Icesave-málinu.
— — —
Færslan birtist upphaflega í Morgunblaðinu, 8. apríl 2011.