Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi skrifar grein í Fréttablaðið á föstudag þar sem hún reynir að réttlæta slæleg vinnubrögð borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins vegna fjárhagsáætlunargerðar. Greinin sýnir að borgarfulltrúar Samfylkingar láta sér í léttu rúmi liggja að Reykjavíkurborg er komin rúmum fimm mánuðum fram yfir lögbundinn frest vegna skila á þriggja ára fjárhagsáætlun til innanríkisráðuneytisins.
Umræddur dráttur vegna fjárhagsáætlanagerðar er síður en svo eina dæmið um lausatök meirihlutans á fjármálum Reykvíkinga. Sama dag og grein Oddnýjar birtist, kom fram í fréttum að Kauphöllin hefur áminnt Reykjavíkurborg og beitt hana sektarviðurlögum fyrir að birta ársreikning of seint. Áður höfðu fréttir verið sagðar af því að Kauphöllin áminnti borgina fyrir að greina ekki frá milljarða lánveitingum til Orkuveitunnar í samræmi við reglur. Enn fremur að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, rannsakar nú hvort umræddar lánveitingar borgarinnar brjóti í bága við EES-samninginn.
Afneitun í stað ábyrgðar
Eitt er að svo illa sé haldið á málum af hálfu meirihlutans að borgin greiði vanrækslusektir og að yfirvofandi séu frekari viðurlög af hálfu ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Það bætir hins vegar ekki úr skák þegar borgarfulltrúar meirihlutans bregðast við viðvörunarorðum og óskum, um að þessir hlutir séu tafarlaust lagfærðir í samræmi við skýr lagafyrirmæli, með ásökunum um að um sé að ræða óþarfa upphrópanir og upphlaup.
Oddný gerir mikið úr því í grein sinni hvað það sé erfitt fyrir borgina að skila þriggja ára áætlun og reynir síðan, eins og Dagur B. Eggertsson, að kenna um óvissu vegna tilflutnings málefna fatlaðra, sem átti sér stað um síðustu áramót.
Enn skal minnt á að Reykjavíkurborg hefur áður tekið við stórum málaflokkum frá ríkinu án þess að það hafi sett áætlanagerð sveitarfélagsins í uppnám. Þá var það ekki bara Reykjavíkurborg heldur öll önnur sveitarfélag, sem tóku við umræddum málaflokki. Flest ef ekki öll önnur sveitarfélög landsins hafa nú skilað umræddri þriggja ára áætlun og ekki er vitað til þess að neitt þeirra, utan Reykjavíkurborgar, reyni að nota málefni fatlaðra sem afsökun fyrir því að skila ekki lögbundnum gögnum til ráðuneytisins.
— — —
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. júlí 2011.