Þegar ákveðið var árið 2009 að halda byggingu tónlistarhússins áfram af fullum krafti þrátt fyrir efnahagsþrengingar og gjaldeyrisskort, var því lofað að ekki þyrftu að koma til frekari framlög frá skattgreiðendum til byggingar og rekstrar hússins, umfram þær skuldbindingar, sem þegar höfðu verið gerðar og nema nú um einum milljarði króna á ársgrundvelli í 35 ár. Ýmsir höfðu efasemdir um að verkinu yrði haldið áfram á fullri ferð og vildu fresta framkvæmdum við húsið þar til betur áraði eða a.m.k. draga verulega úr framkvæmdahraða. Mjög var var hins vegar þrýst á menn um að styðja lúkningu hússins og því lofað að ekki þyrftu að koma til frekari opinber framlög til þess umfram þegar gerðar skuldbindingar.
Almenningur borgar brúsann
Nú, þegar ljóst er orðið að hin samningsbundnu framlög duga ekki, þarf að leiða í ljós án undanbragða hvort einhverjar forsendur frá 2009 brugðust og þá hverjar, eða hvort stjórnmálamenn voru hreinlega gabbaðir. Reykjavíkurborg á 46% í Hörpunni og ber því mikla ábyrgð á húsinu og rekstri þess. 3. nóvember 2011 óskaði borgarráð eftir því að gerð yrði úttekt á rekstri Hörpunnar „til að skýr staða liggi fyrir og hægt sé að meta hvernig verkefnið hefur farið af stað“. Jafnframt lagði borgarráð áherslu á að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga, sem koma að rekstrinum og að ekki yrði farið í frekari framkvæmdir við húsið, sem ekki leiddu af sér tryggar viðbótartekjur, meðan á úttektinni stæði.
Vilji borgarráðs hundsaður
Búist var við því að brugðist yrði án tafar við ósk borgarráðs um rekstrarúttekt og einföldun á stjórnskipulagi. Vinna við rekstrarúttekt hófst hins vegar ekki fyrr en fimm mánuðum eftir umrædda ósk borgarráðs eða í apríl sl. þegar Austurhöfn – TR fól KPMG verkið og lauk því í maí. Rekstrarúttekt KPMG er nauðsynlegt plagg fyrir þá, sem vilja átta sig á því hvað hefur farið úrskeiðis í rekstri hússins og ræða tillögur til úrbóta, ekki síst alþingismenn og borgarfulltrúa, sem vinna nú að fjárhagsáætlunum næsta árs. Þá eiga mörg atriði í umræddri skýrslu ekki síður erindi við almenning, sem borgar brúsann.Ljóst er að ósk borgarráðs frá 3. nóvember um að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga sem koma að rekstrinum, var hundsuð. Í ágúst sl. komu enn a.m.k. átta félög að rekstri Hörpu. Sama fólkið sat þá meira og minna í stjórnum allra þessara félaga og fékk greidda þóknun fyrir setu í hverri stjórn.Vegna þess völundarhúss félaga, sem byggt hefur verið upp í kringum Hörpu, hefur verið mun flóknara og erfiðara en ella fyrir stjórnmálamenn og fréttamenn að rýna og fjalla um rekstur hússins. Rekstrarúttekt KPMG er að mörgu leyti vel unnin og auðveldar hlutaðeigandi að rýna reksturinn.
Embættismenn á hálum ís
Í ljósi þess hve KPMG-skýrslan er mikilvæg er það afar óeðlilegt hvernig stjórn Austurhafnar – TR hefur ítrekað neitað að láta undirrituðum hana í té. Jafnvel eftir að aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra sendi fjölmiðlum skýrsluna, neitaði stjórnin að afhenda undirrituðum hana. Eftir því sem næst verður komist, studdu þrír fulltrúar Reykjavíkurborgar í stjórn Austurhafnar umrædda ákvörðun. Tveir af þessum stjórnarmönnum eru embættismenn, sem heyra beint undir borgarstjórann í Reykjavík en hinn þriðji er pólitískur fulltrúi meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins.Með ólíkindum er að stjórn Austurhafnar, sem er að fullu í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, skuli leggja sig í líma við að halda mikilvægum upplýsingum um fjárhag Hörpu frá kjörnum fulltrúum. Ekki er síður ámælisvert að tveir af æðstu embættismönnum Reykjavíkurborgar, sem sitja í stjórninni, taki fullan þátt í því með þessum hætti að halda umræddum upplýsingum frá kjörnum borgarfulltrúa.Ef ekki væri fyrir atbeina mennta- og menningarmálaráðherra, væri KPMG-skýrslan sjálfsagt enn leynileg. Enn hefur enginn haldið því fram svo ég viti að birting skýrslunnar hafi með nokkrum hætti skaðað rekstur Hörpu. Hins vegar hefur almenningur fengið gleggri upplýsingar en áður um óviðunandi vinnubrögð og jafnvel spillingu í tengslum við byggingu og rekstur hússins.
Grundvallarregla brotin
Í þessu máli er vegið að þeirri grundvallarreglu að embættismenn starfi í þágu kjörinna fulltrúa og útvegi þeim án undanbragða allar umbeðnar upplýsingar, sem fyrirfinnast um fjármál stofnana borgarinnar og fyrirtækja í hennar eigu. Í umræddu máli var þessari reglu snúið á haus og embættismenn tóku fullan þátt í því að halda mikilvægum upplýsingum frá kjörnum borgarfulltrúa. Á borgarstjórnarfundi 4. september sl. spurði ég um afstöðu Jóns Gnarrs Kristinssonar borgarstjóra til þeirrar ákvörðunar stjórnar Austurhafnar að neita þráfaldlega óskum kjörins borgarfulltrúa um aðgang að umræddri úttekt KPMG. Spurði ég jafnframt hvort borgarstjóri eða staðgengill hans, Dagur B. Eggertsson, hefðu með einhverjum hætti komið að ákvörðun stjórnarinnar, t.d. með samráði við fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn fyrirtækisins.
Allt í boði Samfylkingarinnar
Þrátt fyrir að spurningarnar væru afar skýrar, treysti borgarstjóri sér ekki til að svara þeim fyrr en hann hefði skoðað málið betur. Tæpur mánuður er nú síðan spurningarnar voru lagðar fram og enn hefur borgarstjóri ekki svarað. Rétt er að minna á að borgarstjóri er sjálfur embættismaður, sem ber að svara slíkum spurningum og veita öllum borgarfulltrúum upplýsingar óháð flokkslínum. Þetta mál er aðeins eitt dæmi um gersamlega óviðunandi vinnubrögð, sem nú viðgangast í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ef til vill er ekki hægt að búast við miklu af borgarstjóra, sem sjálfur hefur lýst yfir að hann sé trúður. En mikil er ábyrgð Samfylkingarinnar, sem er í meirihlutasamstarfi með „trúðnum“ og leggur blessun sína yfir slík vinnubrögð.
— — — — — — —
Grein þessi birtist upphaflega í Morgunblaðinu 1.x.2012.