Meirihluti stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur ákvað á síðasta stjórnarfundi, með fyrirvara um samþykki eigenda, að taka tilboði í svonefnt Magma-skuldabréf, sem er í eigu fyrirtækisins.
Skuldabréfið var gefið út af Magma Energy Sweden A/B árið 2009 og var hluti greiðslu fyrir hlutabréf Orkuveitunnar í HS-Orku. Hluturinn hafði þá verið til sölu um nokkurt skeið en samkeppnisyfirvöld höfðu komist að þeirri niðurstöðu að Orkuveitunni væri óheimilt að eiga svo stóran hlut í HS-Orku og þannig sett eignarhaldinu skorður.
Í síðasta árshlutareikningi Orkuveitunnar var bókfært verðmæti skuldabréfsins um níu milljarðar króna. Verðmæti bréfsins ræðst að hluta af álverði og að baki því stendur veð í hinum seldu hlutabréfum í HS-Orku.
Eins og gefur að skilja, hefur það bæði kosti og galla í för með sér að selja Magma-skuldabréfið nú. Það kemur sér vissulega vel fyrir Orkuveituna að losa um þessa eign sína og fá þannig aukið lausafé. Á móti þarf að skoða hvort verið sé að selja umrætt bréf með of miklum afföllum, t.d. í ljósi þess að álverð hefur lækkað verulega að undanförnu og er óvenjulega lágt um þessar mundir. Það er að sjálfsögðu ekki gott fyrir Orkuveituna ef slíkt skuldabréf er selt á hálfgerðri útsölu.
Hér er því miður ekki hægt að fjalla um fjárhæðir í tengslum við sölu skuldabréfsins þar sem yfirstjórn Orkuveitunnar hefur lagt áherslu á að þær séu trúnaðarmál. Vonandi verður almenningur upplýstur um þessar fjárhæðir að fullu áður en ákvörðun verður tekin. Og frá og með 1. júlí, eftir nokkrar klukkustundir, verður sú breyting að upplýsingalögin gilda um starfsemi Orkuveitunnar.
Sala Orkuveitunnar á hlutnum í HS-Orku til Magma Energy var mikið pólitískt hitamál á sínum tíma. Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðust eindregið gegn sölunni og efndu til mikilla átaka vegna málsins í fjölmiðlum og í borgarstjórn þar sem salan var endanlega samþykkt 15. september 2009. Borgarfulltrúar þessara flokka hvöttu stuðningsmenn sína til að fjölmenna á áhorfendapalla Ráðhússins og mótmæla þannig sölunni. Um tíma var ekki fundarfriður vegna óláta og háreystis frá áhorfendapöllum. Nafnakalls var krafist við afgreiðslu málsins og greiddu borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna atkvæði gegn sölunni. Gáfu þeir upp þær ástæður fyrir andstöðunni að samningurinn væri afar slæmur fyrir Orkuveituna og að með honum væri verið að selja íslenskar orkuauðlindir í hendur erlendra aðilja. (Skýrt var að sveitarfélagið Reykjanesbær átti umræddar auðlindir.) Þeir héldu því fram að kjörin á umræddu skuldabréfi væru smánarleg og efuðust stórlega um getu Magma til að standa skil á því á gjalddaga, árið 2016.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ekkert að athuga við sölu Magma-skuldabréfsins ef söluverðið er viðunandi. En ef borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna vilja vera sjálfum sér samkvæmir og standa við stóru orðin frá árinu 2009, hljóta þeir að leggjast gegn sölu Magma-skuldabréfsins nú. Væntanlega í þeirri von að greiðandi bréfsins standi ekki skil á því á gjalddaga árið 2016 og að almannafyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur eignist þá hlutabréf í HS-Orku á ný og salan, sem þessir flokkar börðust svo einarðlega gegn árið 2009, gangi þá til baka.