Í Reykjavík-vikublaði, sem kom út í dag, var eftirfarandi spurningu beint til borgarfulltrúa í Reykjavík: Ert þú fylgjandi því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni? Svar mitt er eftirfarandi:
Já. Þegar borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir því árið 2006 að þeir væru reiðubúnir að skoða hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar, var skýrt kveðið á um að ekki væri verið að tala um flutning til Keflavíkur heldur yrði að tryggja að flugvallarstarfsemi yrði áfram á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Frá upphafi hefur verið ljóst að þessi afstaða byggðist á tveimur forsendum; að gott flugvallarstæði fyndist í eða við Reykjavík og að ríkisvaldið myndi bera kostnaðinn vegna flutnings flugvallarins og uppbyggingar hans á nýjum stað.
Báðar þessar forsendur eru brostnar. Engin niðurstaða hefur náðst varðandi nýtt flugvallarstæði og flestum er ljóst að ríkið hefur hvorki vilja né getu til að veita tugi milljarða króna úr tómum ríkiskassanum til uppbyggingar nýs flugvallar, sem standast þarf alþjóðlegar kröfur. Hverfi flugvallarstarfsemi úr Reykjavík árið 2016 mun það stefna innanlandsflugi og sjúkraflugi í fullkomna óvissu sem og þeim fjölmörgu störfum og umsvifum, sem flugvöllurinn veitir Reykvíkingum. Ábyrgðarlaust er að flæma flugvallarstarfsemi úr Reykjavík þegar allsendis er óljóst hvort og þá hvernig þessir mikilvægu hagsmunir verði tryggðir.