Á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag fluttum við sjálfstæðismenn tillögu um að efnt yrði til átaks í því skyni að fjölga útilistaverkum í íbúahverfum í eystri hluta borgarinnar.
Viðurkennt er að útilistaverk gegna mikilvægu hlutverki við að fegra borgir og einstök hverfi og stuðla að menningarbrag. Útilistaverk gegna m.a. mikilvægu hlutverki við grenndarkennslu nemenda í leikskólum og grunnskólum, sem er vaxandi þáttur í skólastarfi.
Þegar ég skoðaði staðsetningu 97 útilistaverka borgarinnar kom í ljós að dreifing þeirra um borgina er mjög ójöfn. Tæpur helmingur verkanna eða 46 eru í póstnúmeri 101. Sextán verk eru í 105 og þrettán í 104. Síðan fækkar þeim mjög eftir því sem austar dregur og í sumum hverfum er ekkert útilistaverk.
Æskilegt er að fjölga útilistaverkum í þeim íbúahverfum borgarinnar þar sem nú er fá slík verk eða jafnvel ekkert að finna. Ýmsar leiðir er hægt að fara við val á listaverkum. Ekki er kostnaðarsamt að smíða eftirgerð af verkum í eigu Listasafns Reykjavíkur og koma fyrir á góðum stöðum í hverfunum. Einnig er sjálfsagt að meta hvort ekki sé hægt að færa verk úr hverfum þar sem mörg slík útilistaverk eru, í hverfi þar sem fá eða engin slik verk eru. Síðast en ekki síst er hægt að efna til samkeppni um ný verk. Rétt er að óskað verði eftir hugmyndum um staðsetningu fyrir útilistaverk hjá íbúum viðkomandi hverfa sem og hverfisráðum.
Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar vildu ekki samþykkja tillöguna í borgarstjórn en vísuðu henni til nefndar.