Hinn 16. nóvember nk. verður efnt til prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Hef ég ákveðið að sækjast eftir öðru sæti framboðslistans þar sem ég tel að kraftar mínir og reynsla nýtist Reykvíkingum best verði ég í forystusveit.
Mikilvægt er að halda í heiðri grunngildi Sjálfstæðisflokksins um lága skatta og ábyrga fjármálastjórn. Rjúfa þarf þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í ýmsum málaflokkum undir stjórn Besta flokksins og Samfylkingarinnar, t.d. í skólamálum, samgöngumálum og málefnum eldri borgara. Tími er kominn til að forgangsraða í þágu grunnþjónustu við borgarbúa í stað gæluverkefna núverandi borgarstjórnarmeirihluta.
Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að gera Reykjavík að enn líflegri og skemmtilegri borg þar sem frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja er virkjað og þar sem öll hverfi fá að njóta sín. Fjölga ber búsetukostum ungs fólks og gera sem flestum kleift að eignast húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
Menntamálin mikilvæg
Eitt mikilvægasta verkefni næstu ára er að efla skólastarf í borginni og þá sérstaklega að bæta grunnskólamenntun eftir þá stöðnun og forystuleysi, sem ríkt hefur í málaflokknum undir stjórn núverandi borgarstjórnarmeirihluta. Leggja þarf áherslu á hagnýtingu samræmdra mælinga til að bæta skólastarf . Auka þarf möguleika foreldra á að fylgjast með námsárangri barna sinna og þess skóla sem þau ganga í. Þá er rétt að foreldrar fái umsagnarrétt um ráðningu skólastjóra eins og löng og farsæl hefð er fyrir víða erlendis.
Reykjavíkurflugvöllur
Þegar borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir því árið 2006 að þeir væru reiðubúnir að skoða hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar, var skýrt kveðið á um að ekki væri átt við flutning til Keflavíkur heldur yrði að tryggja áframhaldandi flugvallarstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Frá upphafi hefur verið ljóst að þessi afstaða byggðist á tveimur forsendum: að gott flugvallarstæði fyndist í eða við Reykjavík og að ríkisvaldið myndi bera kostnaðinn vegna flutnings flugvallarins og uppbyggingar hans á nýjum stað.
Báðar þessar forsendur eru brostnar. Engin niðurstaða hefur náðst varðandi nýtt flugvallarstæði og flestum er ljóst að ríkið hefur hvorki vilja né getu til að veita tugi milljarða króna úr tómum ríkiskassanum til uppbyggingar nýs flugvallar, sem standast þarf alþjóðlegar kröfur. Hverfi flugvallarstarfsemi úr Reykjavík árið 2016 mun það stefna innanlandsflugi og sjúkraflugi í fullkomna óvissu sem og þeim fjölmörgu störfum og umsvifum, sem flugvöllurinn veitir Reykvíkingum. Ábyrgðarlaust er að flæma flugvallarstarfsemi úr Vatnsmýri þegar allsendis er óljóst hvort og þá hvernig þessir mikilvægu hagsmunir verði tryggðir.
Umferðaröryggi í þágu allra
Styrkja þarf ólíka samgöngukosti í borginni og forgangsraða fjárveitingum í þágu umferðaröryggis eftir því sem kostur er. Hnekkja þarf aðgerðaleysisstefnu núverandi borgarstjórnarmeirihluta, sem vill engar stórframkvæmdir í vegagerð í Reykjavík næstu tíu árin. En sýnt hefur verið fram á það með óyggjandi hætti að mislægar umferðarlausnir á ákveðnum stöðum eru mjög arðbærar þar sem þær fækka slysum, draga úr mengun og greiða fyrir umferð.
Eflum Sjálfstæðisflokkinn
Flest stærstu framfaramál Reykvíkinga eiga það sameiginlegt að hafa verið borin fram af Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn. Til að skýr stefnubreyting geti orðið í reykvískum stjórnmálum næsta vor, þarf Sjálfstæðisflokkurinn að styrkjast og eflast. Er það von mín að sem flestir taki þátt í prófkjörinu og leggi þannig glæsilegan grunn að sigri Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 24. október 2013.