Á borgarstjórnarfundi í dag lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að óskað yrði eftir endurskoðun á samgöngusamningi ríkisins og Reykjavíkurborgar með það að markmiði að á samningstímabilinu verði ráðist í stórframkvæmdir í samgöngumálum í Reykjavík með umferðaröryggi og arðsemi að leiðarljósi.
Umræddur samningur var gerður í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar og með stuðningi borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar. Samningurinn tók gildi á árinu 2012 og felur í sér að hætt verður við allar stórar samgönguframkvæmdir á stofnbrautakerfinu í Reykjavík á samningstímabilinu, þ.e. frá 2012-2022. Á sama tíma munu hins vegar tugir milljarða renna til samgönguframkvæmdum í öðrum kjördæmum landsins.
Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar lagðist gegn því að tillagan yrði borin upp til atkvæða á fundinum en lét þess í stað vísa henni til borgarráðs. Í umræðum á fundinum kom fram að borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar vilja ekki endurskoða umræddan samning með það að markmiði að á samningstímabilinu verði ráðist í framkvæmdir á stofnbrautakerfinu í Reykjavík með umferðaröryggi og arðbærni að leiðarljósi. Sem fyrr styður Sjálfstæðisflokkurinn að Reykvíkingar eigi val um ólíka samgöngukosti um leið og stuðlað sé að auknu umferðaröryggi allra vegfarenda, hvort sem þeir nota almenningssamgöngur, bifreiðar, hjól eða tvo jafnfljóta.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/06/engar_storframkvaemdir_i_samgongumalum/