Nýlega gagnrýndu nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar harðlega að ákveðið var að við myndun nýrrar ríkisstjórnar að fjölga ráðherrum um einn, úr ellefu í tólf. Slík fjölgun er í sjálfu sér ekki æskileg en ráðherrar hafa áður verið tólf talsins og breytingin var niðurstaða viðræðna samsteypustjórnar þriggja ólíkra flokka um verkaskiptingu í áframhaldandi stjórnarsamstarfi
Það kemur úr hörðustu átt þegar þingmenn samfylkingarinnar gagnrýna stækkandi stjórnsýslubákn. Samfylkingin er ráðandi afl í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem kostnaður æðstu stjórnsýslu hefur margfaldast og báknið þanist út að sama skapi. Vilji flokkurinn raunverulega minnka báknið, ætti hann að vinna gegn örum vexti þess hjá Reykjavíkurborg.
Hafa vinnubrögð borgarstjórnar batnað?
Þingmenn Samfylkarinnar komu því til leiðar ásamt VG að borgarfulltrúum í Reykjavík var fjölgað með lagaboði um 53% við samþykkt nýrra sveitarstjórnarlaga árið 2011 en fjölgunin tók gildi 2018. Varla dettur nokkrum manni í hug að vinnubrögð borgarstjórnar hafi batnað á þessu kjörtímabili þrátt fyrir þessa miklu fjölgun. Á sínum tíma kom fram að borgarfulltrúar Samfylkingar og VG hefðu átt í frumkvæðið að breytingu ákvæðisins og orðið hefði verið við því vegna þrábeiðni þeirra. Þegar umrætt lagaákvæði var samþykkt var Dagur B. Eggertsson varaformaður Samfylkingarinnar og sat þingflokksfundi hennar sem slíkur.
Fjölgun borgarfulltrúa um 53%, úr 15 í 23, hefur engu skilað nema stærra bákni, auknum kerfiskostnaði og þá hefur óráðsían í rekstri borgarinnar aukist.
Umrætt lagaákvæði hefur ekki einungis haft áhrif á fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík. Það hefur haft eða mun einnig hafa áhrif á fjölgun bæjarfulltrúa í Garðarbæ, Mosfellsbæ og Vestmannaeyjabæ í óþökk meirihluta íbúa og bæjarfulltrúa í þessum sveitarfélögum, sem eru ósammála Samfylkingunni um að stækka þurfi stjórnsýslubáknið frekar.
Í síðustu viku lagði ég fram frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011, ásamt nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. Breytingin felur í sér að svigrúm sveitarfélaga verði aukið til að ákveða fjölda kjörinna fulltrúa í sveitarsjtórnum sínum. Í tilviki Reykjavíkur verði t.d. afnumin sú skylda að hafa borgarfulltrúa 23. Verði frumvarpið að lögum yrði einungis um heimild að ræða þannig að borgarstjórn geti t.d. sjálf ákveðið hvort hún vilji hafa borgarfulltrúa 23 eða 15 eins og var lengi vel.
Breytingin myndi ekki einungis hafa áhrif í Reykjavík heldur í nokkrum sveitarfélögum, sem hafa nú þegar verið eða verða þvinguð til þess að fjölga bæjarfulltrúum og auka þannig kostnað og flækjustig í stjórnsýslu sinni.
Vilja ekki allir sjálfstjórn sveitarfélaga?
Allt frá því umrætt lagaákvæði var samþykkt 2011, hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins oft lagt fram tillögur um að borgarstjórn óski eftir því við Alþingi að lögunum verði breytt þannig að heimilt verði á ný að fækka borgarfulltrúum í 15, kjósi borgarstjórn það. Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa aldrei viljað samþykkt slíkar tillögur heldur svæft þær, fellt eða vísað frá.
Ég hygg að allir þingmenn og sveitarstjórnarmenn séu í orði kveðnu sammála því að sveitarfélög eigi að hafa sem mest að segja um skipulag stjórnsýslu sinnar. Þrátt fyrir stórorðar yfirlýsingar um víðtæka sjálfstjórn og sjálfsákvöðunarrétt sveitarfélaga vilja þingmenn og borgarfulltrúar Samfylkingarinnar hins vegar þvinga Reykjavík og önnur sveitarfélög með lagaboði til að stækka of stórt bákn enn frekar með því að fjölga kjörnum fulltrúum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 17. febrúar 2022.