Ég þakka sjálfstæðismönnum í Reykjavík kærlega fyrir góðan stuðning í prófkjörinu. Alls hlaut ég 4.582 atkvæði eða um 67% gildra atkvæða. Ég er þakklátur fyrir þetta mikla traust og heiti því að bregðast því ekki.
Þótt stefnt hafi verið á annað sætið er ég ánægður með að hafa hlotið hið þriðja. Öðrum frambjóðendum óska ég til hamingju með árangurinn og hlakka til þess að vinna með þeim að því að gera góða borg enn betri.
Sérstaklega þakka ég þeim, sem réttu mér hjálparhönd með einum eða öðrum hætti í prófkjörsbaráttunni; þeim sem löguðu þessi ókjör af kaffi og steiktu kleinurnar, þeim sem báru bæklingana út í hverfunum í misjöfnum veðrum, þeim sem hvöttu vini og kunningja til að kjósa mig og þeim sem komu með ábendingar um það sem betur mætti gera. Loks þakka ég fjölskyldunni fyrir ómetanlega hjálp og stuðning meðan á prófkjörsbaráttunni stóð, prófkjör reynir ekki síður á fjölskyldur frambjóðenda en þá sjálfa.
Baráttan framundan
Framundan er ströng kosningabarátta og þar mun ég ekki draga af mér, en á meðan þarf að halda vel á spöðunum við stjórn borgarinnar. Þau störf eru aldrei vandalaus, en hafa sjálfsagt aldrei verið jafnstrembin og nú. Óþarfi er að rekja erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu, en þær gera það að verkum að við þurfum að gæta meiri ráðdeildar og útsjónarsemi í borgarkerfinu en fyrr. Þar þarf að haldast í hendur varðstaða um velferð þeirra, sem síst mega við áföllum, endurreisn atvinnulífsins og viðgangur þess eftirsóknarverða umhverfis, sem Reykjavík er fyrir fagurt mannlíf og athafnaþrá einstaklinganna. Þannig byggjum við betri borg og betra land.
Ég segi það ekki út í loftið að þannig byggjum við betra land. Það skiptir nefnilega máli fyrir landið allt hvernig okkur tekst til í höfuðborginni. Þannig er það alla jafna, en það á enn frekar við nú. Það er enn meira aðkallandi vegna þeirrar óstjórnar og ráðleysis, sem við megum búa við úr stjórnarráðinu, og ekki ólíklegt að landsmenn megi búast við frekari búsifjum úr þeirri átt.
Þeim mun mikilvægara er að okkur takist að verja grunnþjónustu borgarinnar, en auka hagræði á öðrum sviðum. Reykjavíkurborg getur nýtt sér hagkvæmni stærðarinnar á mörgum sviðum, en á öðrum þarf að draga saman seglin, forgangsraða af ákveðni og velja verkefnin af kostgæfni. Þannig getum við gert það sem við þurfum að gera og gert það vel. Það munum við gera án þess að hækka útsvarið, borgarbúar mega ekki við auknum útlátum og fjárhagslegri óvissu.
Þetta er ekki innantómt gaspur, því við höfum sýnt það á undanförnu ári hvernig þetta er unnt. Í meirihlutasamstarfi okkar og framsóknarmanna undir stjórn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra hefur okkur tekist að snúa vörn í sókn. Það hefur ekki verið auðvelt, en það hefur samt heppnast vel og í góðri sátt við borgarbúa og borgarstarfsmenn. Ekki svo að skilja að því hafi öllu verið tekið fagnandi, en menn hafa sýnt því skilning að grípa þurfi til slíkra úrræða í þröngri stöðu. Það er þakkar vert.
Enginn skyldi þó ímynda sér að kosningabaráttan í vor verði auðveld. Það verður hún ekki. En hún verður gríðarlega mikilvæg, ekki aðeins fyrir borgarbúa, heldur einnig land og þjóð. Þar þurfa borgaraleg viðhorf og heilbrigð skynsemi að halda velli. X-D!