,,Lífið getur verið erfitt og flókið. Maður veit aldrei í hvorn fótinn maður á að stíga. Við getum farið í ólíkar áttir en ég vona að ég hafi valið rétta leið.“
— Lokaorð aðalpersónunnar í söngleiknum ,,Ólíkum áttum“, í uppsetningu leiklistarhóps Ölduselsskóla.
Á liðnu hausti kom í ljós að nokkrir unglingar í Seljahverfi fiktuðu með fíkniefni (gras). Hratt var brugðist við og tekið á málum með uppbyggilegum hætti af skólastjórnendum, kennurum, foreldrum og nemendum. M.a. var félagsstarf skólans eflt og sjö nýir klúbbar stofnaðir. Leiklistarhópur skólans var stórefldur og í kjölfarið samdi hann og setti upp söngleik um líf nútímaunglinga. Rúmlega áttatíu unglingar tóku þátt í uppfærslunni eða um helmingur af unglingadeild skólans. Áhersla hefur þannig verið lögð á að nemendur hafi nóg uppbyggilegt fyrir stafni utan hefðbundins skólatíma. Afrakstur hins öfluga leiklistarhóps kom í ljós fyrir nokkrum vikum með leikritinu Ólíkum áttum, sem sýnt var við góðar undirtektir.
Frábær söngleikur
Í söngleiknum var fjallað á hispurslausan hátt um þær áskoranir og lífsþorsta, sem fylgja unglingsárunum. Skólinn, samskipti kynjanna, foreldravandamál og vímuefnavandinn fá veglegan sess. Allir, sem muna unglingsárin, þekkja hugsanirnar og samtölin. Börnin halda út á fullorðinsbrautina, sum varfærnislega, öðrum liggur lífið á. Eins og í heimi hinna fullorðnu ná ekki allir að greina á milli raunverulegra gilda og gervigilda. Útlitsdýrkun, kraftadella og tíska fá sinn skammt.
Leikritið er innihaldsríkt, bráðskemmtilegt og oft veltust áhorfendur um af hlátri. Ég velti því fyrir mér á sýningunni hvaða leikritaskáld næði að túlka svo vel gleði, sorgir og viðfangsefni unglinga með eigin orðfæri þeirra og um leið að tvinna marga ólíka þætti saman svo úr yrði heilsteypt og vel heppnað leikrit. Ólöf Halla Bjarnadóttir leiklistarkennari lagði til söguþráðinn en unglingarnir skrifuðu þættina og mótuðu framvinduna eftir sínu höfði. Nemendunum er óskað til hamingju með frábært leikrit. Ólöf Halla, Daníel Gunnarsson skólastjóri, og Haraldur Reynisson tónmenntakennari, sem stýrði metnaðarfullum tónlistarflutningi, fá einnig hamingjuóskir ásamt kennurum og öðrum starfsmönnum skólans.
Stutt á milli gleði og harms
Þessi bráðskemmtilegi söngleikur hafði þó alvarlegan undirtón í líki vágests, sem leggur snörur sínar fyrir unga fólkið okkar á viðkvæmasta og áhrifagjarnasta skeiði lífsins. Þetta er vímuefnavandamálið, sennilega stærsta ógnin sem steðjar nú að vestrænum þjóðfélögum. Einhverjir falla í freistni, misstíga sig og kjósa að flýja veruleikann um stund, sækja í hluti sem síðan reynast ekki eftirsóknarverðir. Fjallað er á hispurslausan hátt um þann hlut sem gerir alla baráttu stjórnvalda gegn eiturlyfjum erfiða, þ.e. þann skelfilega hvata fíkniefnaneytandans til að leita uppi þá, sem minnst mótstöðuafl hafa gegn efnunum, búa til nýja neytendur og selja þeim dóp svo hann sjálfur geti dópað frítt: ,,Hvað er í gangi, er ég nú orðin einhver díler? Eins og ég sé ekki í nægum vandræðum fyrir? En er þetta ekki í lagi; það er ekki eins og ég sé einhver sjúskaður sprautufíkill,“ segir ein persónan í áhrifamiklu atriði.
Vel kom fram í leikritinu hversu örstutt er á milli fölskvalausrar lífsgleði æskunnar og hins harða heims eiturlyfjanna. Fjörugur söngleikur fær sorglegan endi með dauða einnar aðalpersónunnar. Með því sýna leikritahöfundarnir 82 að þeir átta sig á miskunnarleysi eiturlyfjaheimsins og miðla þeim veruleika til skólafélaga sinna. Nemendur, kennarar og skólastjórnendur við Ölduselsskóla fá bestu þakkir fyrir gott framtak.
Eflum jákvæðar forvarnir
Ekkert hverfi er stikkfrí þegar kemur að vímuefnavanda ungmenna. Fyrir nokkrum vikum heimsótti ég t.d. skóla í Vesturbænum þar sem fjórtán ára nemendur sögðu frá því að piltur hefði komið á skólalóðina og boðið þeim fíkniefni til kaups. Gagnvart slíkum vágestum þarf ætíð að vera á verði og verði þeim ágengt, þarf að grípa í taumana með uppbyggilegum hætti eins og gert var í Ölduselsskóla.
Reynslan sýnir að fíkniefnavandinn verður aldrei leystur með löggæslu og tolleftirliti. Jákvæðar forvarnir á einstaklingsbundnum grunni, í skólum og félagsstarfi, virðast skila mestum árangri. Nefna má aukna samveru foreldra og barna og umræður um málið á heimilum sem og þátttöku í starfi íþróttafélaga, skáta, félagsmiðstöðva o.s.frv. Síðast en ekki síst felast jákvæðar forvarnir í miðlun upplýsinga milli unglinganna sjálfra á jafnréttisgrundvelli, eins og í þessu góða leikriti. Slíkar forvarnir þarf að efla og þar geta allir lagt eitthvað af mörkum.
— — —
Þessi færsla birtist upphaflega í Morgunblaðinu, 26. apríl 2011.