Um aldir hafa herskip frá vinaþjóðum okkar komið í vináttuheimsóknir til Reykjavíkur á leið sinni um norðurhöf. Meðan skipin eru í höfn kaupa þau kost en sjóliðarnir heimsækja búðir og bari og blanda geði við borgarbúa. Skipherrann heimsækir hins vegar æðstu stjórnendur borgarinnar og staðfestir þannig formlega að um vináttuheimsókn sé að ræða.
Með brottför Varnarliðsins og hinnar öflugu þyrlubjörgunarsveitar þess, færðust björgunarmál á víðlendu svæði á Norður-Atlantshafi alfarið á hendur Íslendinga en brugðist var við með því að stórauka þyrlu- og skipakost Landhelgisgæslunnar. Allir sjá mikilvægi þess að öflugt björgunarlið sé rekið á Íslandi, ekki einungis í þágu Íslendinga sjálfra heldur einnig vegna mikillar umferðar skipa og flugvéla í nágrenni við landið. Ljóst er að miðað við allar aðstæður þyrftu fleiri björgunarþyrlur að vera til taks í íslenskri lögsögu en Landhelgisgæslan nær nú að reka innan fjárheimilda sinna.
Alþjóðlegt samstarf í björgunarmálum
Við slíkar aðstæður er ánægjulegt að sjá að Landhelgisgæslunni gengur vel að auka samstarf sitt við flota þeirra vinaþjóða okkar, sem stunda siglingar í norðurhöfum. Það er skylda stjórnmálamanna að styðja við slík samskipti og leggja gott til þeirra eftir því sem þeir hafa tök á. Það gera þeir t.d. með því að bjóða slíka gesti velkomna.
Enginn veit hvenær þær aðstæður skapast að þörf verði fyrir sameiginleg viðbrögð björgunarliðs frá mörgum ríkjum í senn, t.d. vegna náttúruhamfara, mengunarslyss, flugslyss, sjóslyss eða jafnvel hryðjuverka í íslenskri lögsögu. Komi til slíks er nauðsynlegt að samskipti Íslendinga við erlenda vinaflota og björgunarsveitir hvíli á traustum og vinsamlegum grunni, rækt með samhæfðum björgunaræfingum og margvíslegum öðrum samskiptum, t.d. gagnkvæmum vináttuheimsóknum. Í kringum Ísland eru fjölfarnar flug- og siglingaleiðir og mun umferð um þær líklega aukast enn frekar á komandi áratugum.
Við eigum ekki að tortryggja eða leggjast gegn umferð flug- og skipaflota vinaþjóða um lögsögu okkar heldur hvetja til hennar á grundvelli sameiginlegra hagsmuna þjóðanna í öryggis- og björgunarmálum.
Heimsókn þýsku flotadeildarinnar til Reykjavíkur er gott dæmi um slíkt samstarf. Eitt skipanna er fljótandi sjúkrahús og hefur sinnt hjálpar- og björgunarstarfi víða um heim. Með þýsku skipunum er þyrla, sem mun aðstoða Landhelgisgæsluna á meðan önnur þyrla hennar er í viðgerð. Við njótum því þegar góðs af þessari heimsókn.
Þáttur borgarstjóra
Við komu þýsku flotadeildarinnar til Reykjavíkur ákvað borgarstjórnarmeirihluti Besta flokksins og Samfylkingar að sýna hinum erlendu gestum að þeir væru óvelkomnir og neitaði borgarstjóri að hitta yfirmann flotadeildarinnar eins og löng hefð er fyrir. Var sagt frá því í fjölmiðlum að þetta væri í fyrsta skipti, sem þýski flotinn fengi slíkar trakteringar í vináttuheimsókn.
Fyrir nokkrum mánuðum beitti sami borgarstjóri sér fyrir samþykkt tillögu um að umferð herflugvéla um Reykjavíkurflugvöll yrði stöðvuð. Nú eru skýr skilaboð gefin um að her- og björgunarskip vinaþjóða séu einnig óvelkomin til höfuðborgar Íslands. Slík framkoma er hneisa og getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir íslenska hagsmuni. Er líklegt að vinaþjóðir kjósi að auka samstarf við Íslendinga í öryggis- og björgunarmálum og rétta hjálparhönd, t.d. með því að lána þyrlur, ef þær eru um leið látnar finna fyrir því að skip þeirra og flugvélar séu óvelkomnar til sjálfrar höfuðborgar landsins?
Allt í boði Samfylkingarinnar
Hér er ekki um prívatflipp borgarstjóra að ræða enda er hann dyggilega studdur af formanni borgarráðs, Degi B. Eggertssyni, varaformanni Samfylkingarinnar. Á sama tíma og varaformaðurinn styður væntanlega þátttöku ríkisstjórnar Íslands í hernaðaraðgerðum í Líbíu, vanvirðir hann samstarf okkar í björgunarmálum við hina þýsku vinaþjóð.
— — —
Færslan birtist upphaflega í Morgunblaðinu, 19. apríl 2011.