Sjálfsögðum spurningum ekki svarað
Á fundum stýrihópa, sem leiða eiga breytingarferlið í einstökum skólum, hafa ekki fengist svör við ýmsum mikilvægum spurningum foreldra um fyrirhugaðar breytingar eða framtíðarfyrirkomulag kennslunnar. Einföld skýring er þó til á því af hverju þeir embættismenn, sem sækja slíka fundi fyrir hönd borgarinnar, geta ekki svarað slíkum spurningum. Hún er sú að stefnumótun borgarstjórnarmeirihlutans er í molum og ekki liggur fyrir hvernig ýmsum mikilvægum úrlausnarefnum verður ráðið til lykta. Embættismenn vísa slíkum spurningum því til kjörinna fulltrúa, en þar hafa foreldrar síðan komið að tómum kofunum.
Dæmi um þetta eru ótrúleg samskipti, sem foreldrar í Hamraskóla hafa átt við Oddnýju Sturludóttur, formann skóla- og frístundaráðs, að undanförnu. Þar sem fátt varð um svör hjá embættismönnum óskuðu foreldrarnir eftir skýrum svörum frá Oddnýju um flutning unglingadeildar skólans í annað hverfi, hvaða ávinningi hún myndi skila svo og um framtíð sérdeildar í skólanum. Oddný neitaði lengi vel óskum um að koma á fund í Hamraskóla til að ræða málin en gerði foreldrum á móti það tilboð að hún væri til í að veita þremur fulltrúum þeirra áheyrn á skrifstofu sinni í Ráðhúsinu. Foreldrar tóku ekki þessu kostaboði en héldu engu að síður fund þar sem mikil óánægja kom fram með vinnubrögð meirihlutans.
Fulltrúum foreldra nóg boðið
Fulltrúar meirihlutans féllust loks á að koma á fund með foreldrum í Hamraskóla sl. miðvikudag. Fundurinn var afar fjölmennur og þar kom skýrt fram sá vilji foreldra að þeir vilja ekki missa unglingadeild skólans úr hverfinu. Í máli hinna fjölmörgu foreldra, sem tjáðu sig á fundinum, komu fram miklar efasemdir um fjárhagslegan og faglegan ávinning af umræddum flutningi og mjög var kvartað yfir lélegum vinnubrögðum í málinu. Fulltrúar meirihlutans höfðu hins vegar ekkert nýtt fram að færa á fundinum og kom þar betur í ljós en áður að öll stefnumótun hans virðist á sandi byggð.
Formenn foreldrafélaganna í Hamraskóla og Húsaskóla hafa nú báðir sagt sig úr stýrihópi vegna umrædds flutnings unglingadeilda þar sem óskir foreldra og jafnvel fyrirspurnir eru algerlega virtar að vettugi. Þannig er samráðið í framkvæmd hjá borgarfulltrúum Samfylkingar og Besta flokksins.
Óánægja foreldra í Hamrahverfi með vinnubrögð borgarstjórnarmeirihlutans er ekki einsdæmi. Í öðrum hverfum funda foreldrar og samþykkja ályktanir þar sem sleifarlagi meirihlutans er mótmælt. Einnig ríkir mikil óvissa í þeim hverfum þar sem meirihlutinn ætlaði upphaflega að knýja fram breytingar en hvarf frá þeim tímabundið sl. vor eftir mestu fjöldamótmæli foreldra vegna skólamála í borginni.
—
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 6. febrúar 2012.