Borgarstjóri, hinn sami og bauð sig fram undir slagorðunum „Gefum fávitunum frí“ og sagði um borgarfulltrúa annarra flokka að þeir væru með svarta beltið í einelti, hélt því fimm sinnum fram í Kastljósi Sjónvarps í fyrrakvöld að munurinn á sér og öðrum stjórnmálamönnum væri sá að hann talaði ekki illa um fólk. Ef fyrrnefnd ummæli eru dæmi um gott umtal, er vissulega nokkuð á sig leggjandi til að forðast illt umtal hjá þeim manni, sem nú gegnir embætti borgarstjóra í Reykjavík.
Met í aðgerðaleysi
Eftir mikla snjókomu í Reykjavík undanfarinn mánuð var hálkan um síðustu helgi fyrirsjáanleg. Veðurfræðingar spáðu þíðu og vatnsveðri með margra daga fyrirvara. Í einfeldni sinni bjuggust Reykvíkingar við því að borgaryfirvöld myndu hálkuverja götur og gönguleiðir í borginni eftir föngum við slíkar aðstæður. Stjórnendur borgarinnar ákváðu hins vegar að hafast ekki að og slógu þar með met í aðgerðaleysi. Sendu reyndar þau skilaboð til fjölmiðla að ekki væri ómaksins virði að salta gönguleiðir og bregðast þannig við hættunni.
Ekki fengust betri skýringar hjá borgarstjóra vegna vinnubragða við álagningu fæðisgjalds á þroskahamlaða og fatlaða einstaklinga en að gjaldtaka þessi byggist á fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2012. Hvað eftir annað hefur komið fram að notendur þjónustunnar eru ósáttir við upphæð gjaldsins, sem þeir telja ósanngjarna.
Í Kastljósinu fullyrti borgarstjóri fyrst að þessi pólitíska ákvörðun hefði ekkert með pólitík að gera. Síðan sagði hann að ákvörðun um þessa gjaldtöku hefði verið tekin þar sem notendurnir hefðu viljað borga meira. Þrátt fyrir að umrædd ákvörðun hafi nú verið dregin til baka, harðneitaði borgarstjóri því að um mistök hefði verið að ræða.
Þetta er svo erfitt
Viðtalið leiddi í ljós að borgarstjóra skortir yfirsýn og er ófær um að viðurkenna eigin mistök, hvað þá að bæta úr þeim. Borgarstjóri afsakaði reyndar getuleysi meirihlutans ítrekað með því að það væri svo mikið að gera, það væri svo mikið álag og að þetta væri allt gríðarlega umfangsmikið og erfitt. Verður varla með skýrari hætti komið orðum að því að borgarfulltrúar meirihlutans hafa tekið að sér verkefni, sem þeir ráða ekki við.
—
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 13. janúar 2012.