Ótrúlegt er að ríkisstjórnin ætli sér að leggja á nýja vegskatta til viðbótar þeim ofurháu sköttum, sem nú þegar eru lagðir á bifreiðaeigendur. Ríkisstjórnin telur ekki skipta máli að benzínverð á Íslandi er nú þegar eitt hið hæsta í heimi en rúmur helmingur af verði hvers benzínlítra rennur til ríkisins.
Hver benzínstöð er því í raun hluti af hinu mikilvirka innheimtukerfi ríkissjóðs, útibú frá skattstofunni.
Háir skattar á eldsneyti eru réttlættir með því að þannig sé í raun verið að afla fjár til samgönguframkvæmda, sem eðlilegt sé að bifreiðaeigendur standi undir. Skattar, sem ríkið innheimtir af bifreiðum og eldsneyti, skila sér þó aðeins að hluta til samgönguframkvæmda. Og það sem þó hefur skilað sér, hefur að stórum hluta verið nýtt til umdeildra stórframkvæmda á landsbyggðinni.
Þrátt fyrir að stærstur hluti eldsneytisskatta sé innheimtur á höfuðborgarsvæðinu, hafa arðbær og brýn samgönguverkefni þar setið á hakanum. Nefna má framkvæmdir, sem myndu stórauka öryggi í umferðinni og fækka slysum; t.d. með uppsetningu vegriða meðfram stofnbrautum og aðskilnaði akreina á fjölförnum vegum.
Hrein viðbótarskattheimta
Komist hugmyndir ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna í framkvæmd verður skattheimta bæði aukin og flækt. Í sjálfu sér er ekkert að því að innheimta veggjöld til að fjármagna samgöngumannvirki en slík innheimta á sér nú þegar stað, og það margfalt, með eldsneytissköttum. Fyrirhuguð veggjöld munu leggjast á meginþorra bifreiðaeigenda og um hreina viðbótarskattheimtu er að ræða því ríkisstjórnin ætlar sér ekki að lækka neina skatta á móti. Þyngst mun skatturinn leggjast á íbúa höfuðborgarsvæðisins og þá, sem fara á milli sveitarfélaga vegna vinnu sinnar. Þá væri með öllu óviðunandi ef staðið væri þannig að málum að vegskattur væri innheimtur innan marka sama sveitarfélagsins, t.d. í þeim tilvikum þegar Kjalnesingar sækja vinnu og þjónustu í önnur hverfi Reykjavíkurborgar.
Það er í sjálfu sér jákvætt að vilji standi til þess að ráðast í úrbætur á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi, sem munu greiða fyrir umferð og stórauka umferðaröryggi. Hins vegar verður að gera þá kröfu til Alþingis að í stað viðbótarskattheimtu verði slíkar framkvæmdir fjármagnaðar með því að höfuðborgarsvæðið fái sanngjarnan skerf af hinum háu skatttekjum af bifreiðum, sem verða til á svæðinu.