Miklar umræður hafa að undanförnu verið um þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að hneppa þjóðina í skuldaánauð vegna IceSave innlánsreikninga í Bretlandi og Hollandi. Margir hafa orðið til þess að benda á að óviðunandi sé að íslenska ríkið greiði kröfu upp á mörg hundruð milljarða, sem mikill vafi leiki á að það eigi að greiða samkvæmt lögum. Einnig ríkir óvissa um getu íslenska ríkisins til að greiða fjögurra milljarða evra IceSave skuldir með kúluláni á 5,5% vöxtum. Flestir óháðir sérfræðingar, sem hafa skoðað IceSave málið í heild eða einstakar hliðar þess, eru þeirrar skoðunar að hin ,,glæsilegu” samningsdrög vinstri stjórnarinnar við Breta og Hollendinga séu ótæk og megi ekki samþykkja óbreytt.
Varnaðarorð Evu Joly
Um síðustu helgi blandaði Eva Joly, Evrópuþingmaður og ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, sér í umræðurnar og benti á galla IceSave samningsins í dagblöðum í fjórum löndum. Erfitt er fyrir Jóhönnu, Steingrím og aðra ráðherra að gera lítið úr málflutningi hennar, eins mikið og þeir hafa gert úr hæfileikum hennar og ráðgjöf í málefnum tengdum bankahruninu og þeim efnahagserfiðleikum sem Íslendingar glíma nú við.
Eva Joly kemst að svipaðri niðurstöðu og ýmsir þeir Íslendingar, sem hvað mest hafa varað við þeim afarkostum sem ríkisstjórnin virðist vera reiðubúin að samþykkja. Hún bendir á að málið snúist um að lítil þjóð axli margra milljarða evra skuldabyrði, sem langstærstur hluti hennar beri nákvæmlega enga ábyrgð á og ráði alls ekki við að greiða. Bretar og Hollendingar neiti að viðurkenna ábyrgð sína í málinu en beiti Íslendinga þess í stað hneykslanlegum þvingunaraðgerðum. Fullyrðir Joly að Íslendingar muni ekki geta staðið undir umræddum ábyrgðum, sem ríkisstjórnin leggur nú allt kapp á að fá samþykktar.
Ríkisstjórnin ræður ekki við verkefnið
Nýútkomin skýrsla Hagfræðistofnunar Íslands rennir einnig stoðum undir þann málflutning að Alþingi beri að hafna IceSave samkomulaginu. Í skýrslunni kemur m.a. fram að í álitum fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans er ekki tekið tillit til þess að stóraukin skuldabyrði þjóðarinnar vegna IceSave hefði óhjákvæmilega neikvæð áhrif á lífskjör í landinu.
Þetta dæmi er aðeins enn ein staðfesting á því að ríkisstjórnin hefur reynst gersamlega óhæf til að vinna úr IceSave deilunni og leysa hana farsællega í þágu þjóðarinnar. Í fyrsta lagi var horfið frá því að láta reyna á ábyrgð Íslendinga í málinu fyrir réttum dómstólum. Illa var haldið á samningum fyrir hönd Íslands og Bretar og Hollendingar náðu fram öllum helstu markmiðum sínum. Kynningu á málstað Íslendinga hefur verið klúðrað, m.a. með því að forsætisráðherra hefur látið gullin tækifæri til funda með erlendum forsetum og forsætisráðherrum fram hjá sér fara. Síðast en ekki síst hefur ríkisstjórnin skellt skollaeyrum við umsögnum margra virtustu lögfræðinga landsins um málið en þeir hafa varað Alþingi eindregið við að samþykkja IceSave ánauðina með þeim hætti sem ríkisstjórnin hugsar sér.
(Grein þessi birtist í Viðskiptablaðinu hinn 6.8.2009.)