Kostuleg eru ummæli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra um að hann sé bjartsýnn á að menn sjái nú fyrir endann á Icesave-málinu og það fái farsælar lyktir. Það er ákaflega brýnt að koma því frá, þetta ólánsmál hættir þá að þvælast fyrir okkur, segir hann. Sennilega er Steingrímur að vísa til þess að málið hætti þá að þvælast fyrir honum og núverandi ríkisstjórn. Ríkisstjórnin ætlar sér þannig að vísa vandanum til framtíðar, enginn veit hvað reikningurinn verður hár eða hvernig hann verður greiddur. Samþykki Alþingi í dag erlendar skuldbindingar vegna viðskipta einkafyrirtækis, mun það í raun marka upphaf þrautagöngu frá sjónarhóli skattgreiðenda.
Að undanförnu hafa ráðherrar og ríkisfjölmiðlar gert mest með að umræður um Icesave gangi ekki nógu hratt fyrir sig á Alþingi en sem minnst fjallað um efnisatriði málsins, þ.e. hvað ánauðin mun í raun þýða fyrir þjóðarbúið. En ný og þungvæg efnisatriði koma stöðugt fram, sem krefjast frekari umræðna um málið á meðal þings og þjóðar.
- Áhættugreining IFS á Icesave-frumvarpinu sýnir að samþykkt þess hefði miklar og óverjandi hættur í för með sér fyrir þjóðina. Áhættan er öll á annan veg og forsendur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir greiðsluhæfi íslenska ríkisins virðist byggjast á óskhyggju og óhóflegri bjartsýni.
- Eftir því sem fleiri lögfræðingar tjá sig verður ljósara að ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingum stenst hvorki íslenska né evrópska löggjöf, þrátt fyrir að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi síðan í febrúar reynt að telja þjóðinni trú um hið gagnstæða.
- Virtir lögfræðingar hafa lýst miklum efasemdum um að lög um ríkisábyrgð vegna Icesave standist ákvæði stjórnarskrár um skýra og afdráttarlausa lagaheimild vegna útgjalda ríkissjóðs.
- Nú síðast komu fram upplýsingar um að greiðslur ríkisins af lánum muni nema um 40% af tekjum þess á næsta ári og íslenska ríkið sé því nærri eða yfir skuldaþolmörkum.
Í skrúfstykki ofurskulda?
Þar sem um er að ræða eitt stærsta mál í sögu lýðveldisins ætti Alþingi að fresta umræðum meðan þingmenn fara betur yfir málið. Á því hefur ríkisstjórnin ekki áhuga heldur keyrir málið í gegn. Umræður um þessi efnisatriði bíða annarra tíma en þá er hætta á að þjóðin verði komin í skrúfstykki ofurskulda. Í sumar var mikill meirihluti landsmanna (63%) á móti þáverandi Icesave-frumvarpi ríkisstjórnarinnar skv. Gallup-könnun. Þrátt fyrir stöðugan áróður um að farsælli og jafnvel glæsilegri niðurstöðu sé náð með núverandi frumvarpi og þjóðin sé búin að fá nóg af málinu, kemur fram með skýrum hætti í skoðanakönnun MMR nú í desember að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna (69%) vill fá að kjósa um frumvarpið.
Flestir Íslendingar hafa áttað sig á því að verið er að ganga á lýðræðislegan rétt landsmanna með því að binda hendur þeirra gagnvart erlendum ríkjum til ófyrirsjáanlegrar framtíðar vegna skuldbindinga, sem eru umfram lagaskyldu og geta þar að auki reynst þjóðarbúinu ofviða. Skömm þeirra, sem slík ólög samþykkja, verður lengi uppi.
(Greinin birtist í Morgunblaðið 30.xii.2009)