Ég man fyrst eftir Ólafi sem rólegum nágranna í næsta húsi við bernskuheimili mitt. Við strákarnir lékum okkur gjarnan í garði hússins, sem Ólafur bjó í. Þegar lætin keyrðu úr hófi, kom Ólafur í gluggann og bað okkur svo fallega að hafa lægra að við gátum ekki neitað. Dró ég þá ályktun að þar væri mikill rólegheitamaður á ferð. Skömmu síðar vaknaði ég við það árla morguns í miðri viku að gatan fylltist af góðglöðum ungmennum í skrýtnum fötum. Foreldrar mínir töluðu um dimmisjón, ég þekkti ekki það orð en horfði furðulostinn á hópinn hylla Ólaf og bjóða honum síðan með sér í partý, sem hann þáði þó ekki. Eftir slíka heimsókn á þessum tíma sólarhrings ályktaði ég að undir virðulegu yfirbragði Menntaskólakennarans hlyti að leynast partýljón.
Nokkru síðar settist ég á skólabekk í Menntaskólanum og komst þá að raun um að Óli Odds var, hvort tveggja í senn, frábær kennari og afar vinsæll meðal nemenda. Í íslenskukennslunni tókst honum vel að vekja áhuga nemenda á hljóðfræði, stafsetningu og ritgerðarsmíð að ógleymdum Íslendinga sögunum. Best fannst mér Ólafi takast upp þegar hann las með okkur Laxdælu og Egils sögu Skallagrímssonar. Var tilkomumikið að sjá þegar hann brá sér fyrirvaralaust í hlutverk Ólafs pá eða Egils Skallagrímssonar. Ólafur lagði áherslu á að koma því til skila að ekki dygði að lesa Íslendinga sögur eins og hvern annan reyfara. Til að njóta þeirra til fulls, yrðum við að læra að lesa á milli línanna, bak við fá orð og torskilda kvæðatexta væru fólgnir fjársjóðir.
Því fór fjarri að Ólafur einskorðaði sig við námsefnið eins og það lá fyrir í námskránni. Kennsluna kryddaði hann með eftirminnilegum frásögnum og hollráðum, sem oft vógu þyngra en boðskapur skólabókanna. Af honum lærði ég m.a. hið dýrmæta heilræði; ,,Stundum er betra að þegja og þykjast vitur,“ sem hefur oft komið sér vel og síst verið ofnotað.
Ólafur hafði ákveðnar skoðanir en lagði ætíð gott til mála og fylgdi þeim eftir með ljúfmennsku og gamansemi. Hygg ég að hið sama gildi um hann og segir í Heimskringlu um Erling Skjálgsson á Sóla: ,,Öllum mönnum kom hann til nokkurs þroska.“
Eftir brautskráningu úr MR gátu ár liðið á milli þess að við hittumst en þegar það gerðist var hann óspar á heilræðin. Ég ræddi t.d. við Ólaf þegar ég gaf fyrst kost á mér í prófkjöri og veitti hann mér þá dýrmæta hvatningu og stuðning. Þegar ég valdist til formennsku í Menntaráði Reykjavíkur varð það eitt fyrsta verk mitt að heyra í honum. Í löngu símtali var víða komið við og sem fyrr var Ólafur óspar á heilræði. Okkur tókst þó að finna eitthvað, sem við vorum ósammála um og voru þau skoðanaskipti tvímælalaust skemmtilegasti hluti samtalsins.
Sakna ég þess að geta ekki oftar skipst á skoðunum við Ólaf. En minningu um góðan dreng mun ég halda í heiðri á meðan mér endast dagar.
Fjölskyldu Ólafs sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
– – –
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu fimmtudaginn 10. nóvember 2011.