Þegar ákveðið var í ársbyrjun 2009 að halda byggingu tónlistarhússins áfram á fullri ferð þrátt fyrir efnahagsþrengingar og gjaldeyrisskort, var því lofað að ekki þyrftu að koma til frekari framlög frá skattgreiðendum til byggingar og rekstrar hússins, umfram þær skuldbindingar, sem þegar höfðu verið gerðar og nema nú um 980 milljónum króna á ári. Ýmsir stjórnmálamenn höfðu efasemdir um að verkinu yrði haldið áfram á fullri ferð og vildu fresta framkvæmdum við húsið þar til betur áraði eða a.m.k. draga verulega úr framkvæmdahraða. Mikill þrýstingur var hins vegar settur á menn um að styðja lúkningu verksins á grundvelli þess að ekki þyrftu að koma til frekari opinber framlög umfram þegar gerðar skuldbindingar. Margir létu undan þrýstingi og studdu verkefnið í þessari trú.
Nú, þegar ljóst er orðið að hin samningsbundnu framlög hafa ekki dugað, er eðlilegt að leitt sé í ljós hvaða forsendur hafi brugðist eða hvort stjórnmálamenn hafi hreinlega verið gabbaðir.
Reykjavíkurborg á 46% í Hörpunni og ber því mikla ábyrgð á því hvernig til tekst í rekstri hússins. 3. nóvember sl. óskaði borgarráð eftir því að gerð yrði úttekt á rekstri Hörpunnar ,,til að skýr staða liggi fyrir og hægt sé að meta hvernig verkefnið hefur farið af stað.” Jafnframt lagði borgarráð áherslu á að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga, sem koma að rekstrinum og að ekki yrði farið í frekari framkvæmdir við húsið, sem ekki leiddu af sér tryggar viðbótartekjur, meðan á úttektinni stæði.
Búist var við því að brugðist yrði án tafar við ósk borgarráðs um rekstrarúttekt á Hörpunni og einföldun á stjórnskipulagi. Vinna við rekstrarúttekt hófst hins vegar ekki fyrr en fimm mánuðum eftir umrædda ósk borgarráðs eða í apríl sl. þegar Austurhöfn – TR fól KPMG verkið og lauk því í maí. Ljóst er að umrædd úttekt er nauðsynleg fyrir þá, sem vilja átta sig á því hvað hefur farið úrskeiðis í rekstri hússins og ræða tillögur til úrbóta, ekki síst alþingismenn og borgarfulltrúa, sem vinna nú að fjárlögum og fjárhagsáætlun næsta árs. Þá eiga mörg atriði í umræddri skýrslu ekki síður erindi við almenning, sem borgar brúsann eins og annan opinberan rekstur.
Ljóst er að ósk borgarráðs frá 3. nóvember um að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga sem koma að rekstrinum, hefur verið hundsuð. Í frétt RÚV í gær kemur fram að átta félög koma að rekstri Hörpu: ,,Sama fólkið situr meira og minna í stjórnum allra þessara félaga og fær greidda þóknun fyrir setu í hverri stjórn.”
Vegna þess völundarhúss félaga, sem byggt hefur verið upp í kringum Hörpu, hefur verið mun flóknara og erfiðara en ella fyrir kjörna fulltrúa og fréttamenn að rýna og fjalla um rekstur hússins. Með birtingu á skýrslu KPMG væri stórt skref stigið í þá átt að unnt væri hægt að fjalla um reksturinn með eðlilegum hætti.
20. júlí sl. óskaði ég eftir því að fá sent afrit af umræddri úttekt KPMG. 26. júlí fékk ég svar þar sem fram kemur að stjórn Austurhafnar – TR sjái sér ekki fært að svo stöddu að senda mér umrædda skýrslu.
Ótrúlegt er að stjórn fyrirtækis, sem er að fullu í opinberri eigu, skuli neita afhendingu upplýsinga með þessum hætti. Megintilgangur umræddrar skýrslu er að leiða í ljós þegar orðna hluti og núverandi stöðu hússins og eiga slíkar upplýsingar að sjálfsögðu fullt erindi til kjörinna fulltrúa, sem bera ábyrgð á rekstri ríkis og borgar, en einnig til almennings. Er vandséð hvernig unnt verður að fjalla á eðlilegan hátt um rekstur hússins og leiðir til úrbóta á meðan slík lykilgögn eru sveipuð leyndarhjúpi. Hvað skyldu margir mánuðir líða áður en stjórninni þóknast að birta skýrsluna og upplýsa skattgreiðendur þannig um stöðu mála?