Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur samþykkti 26. október sl. tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að senda Skátasambandi Reykjavíkur og Bandalagi íslenzkra skáta góðar hamingjuóskir í tilefni af því að 100 eru liðin frá upphafi skipulagðs skátastarfs á Íslandi og 70 ár frá upphafi skátastarfs að Úlfljótsvatni. Um leið og ráðið þakkar skátahreyfingunni fyrir öflugt mannræktarstarf í þágu reykvískrar æsku í hundrað ár, er skátum óskað góðs gengis við áframhaldandi heillaríkt starf í þágu lands og lýðs.
Skátahreyfingin er líklega fjölmennustu alþjóðasamtök í heimi. Í starfi hennar er lögð áhersla á að ala upp sjálfstæða, ábyrga og virka einstaklinga. Virðing fyrir náttúrunni og gæðum hennar hefur verið þungamiðja í öllu skátastarfi frá upphafi og löngu áður en náttúruvernd komst almennt í tísku. Telja má líklegt að þessi höfuðáhersla í starfi hinnar alþjóðlegu skátahreyfingar hafi lagt grunninn að eða a.m.k. ýtt mjög undir þá byltingu í náttúruvernd, sem orðið hefur á síðustu áratugum.
Útivistarparadís að Úlfljótsvatni
Samstarf skáta og Reykjavíkurborgar hefur verið með ágætum. Frá árinu 1942 hafði skátahreyfingin hluta Úlfljótsvatnsjarðarinnar á leigu undir fjölbreytta starfsemi útilífsmiðstöðvar. Þar eru nú m.a. reknar skólabúðir, sumarbúðir fyrir börn, fræðslusetur, skógræktarstarf og þjálfunarbúðir fyrir skáta og björgunarsveitir. Á undanförnum árum hefur aukin áhersla verið lögð á þjónustu við barnafjölskyldur og hafa skátar gert Úlfljótsvatn að einu fjölsóttasta almenningstjaldsvæði landsins þar sem áhersla er lögð á holla og fjölbreytilega afþreyingu.
Þá gegnir Útilífsmiðstöðin mikilvægu hlutverki sem helsti mótsstaður skáta á Íslandi. Á hverju sumri eru þar haldin mót og samkomur og annað hvert landsmót skáta með mörg þúsund þátttakendum og gestum. Úlfljótsvatn er einnig notað til alþjóðlegs mótshalds; árið 2009 var þar t.d. haldið Evrópumót eldri skáta, sem talið er að allt að tíu þúsund manns hafi sótt að gestum meðtöldum.
Yfirleitt hefur verið sátt um það í borgarstjórn að á vegum skátahreyfingunnar væri unnið þjóðþrifastarf og að Úlfljótsvatni væri dýrmætt útivistarsvæði, sem nýta bæri í þágu skáta og almennings. Árið 2005 var þeirri sátt þó teflt í mikla tvísýnu þegar þáverandi vinstri meirihluti í borgarstjórn ákvað gegn vilja skáta að stofna hlutafélag um byggingu 600 sumarbústaða í landi Úlfljótsvatns. Umrædd samþykkt vakti harðar deilur og í kjölfar hennar spunnust miklar umræður um framtíð Úlfljótsvatns og þá tilhneigingu þáverandi borgarstjórnarmeirihluta að verja kröftum og fjármunum Orkuveitunnar til verkefna utan kjarnastarfsemi hennar. Eitt fyrsta verk nýs meirihluta, sem tók við völdum 2006 undir forystu Sjálfstæðisflokksins, var að fella fyrri áætlanir úr gildi með það að markmiði að viðhalda Úlfljótsvatni sem almennu útivistarsvæði í góðu samstarfi við skátahreyfinguna og í þágu almannaheilla.
Sala Úlfljótsvatns
Á síðasta ári lögðum við sjálfstæðismenn til að í tilefni af aldarafmæli skátahreyfingarinnar og 70 ára afmæli skátastarfs að Úlfljótsvatni fengju skátar lítinn hluta af jörðinni þar undir starfsemi sína til viðbótar þeim hluta, sem þeir höfðu þá þegar haft til afnota um áratugaskeið. Um var að ræða sjálft Úlfljótsvatnsbýlið ásamt túnum í kring, sem væru góð viðbót við þá útivistarstarfsemi sem skátar hafa rekið þar í fárra metra fjarlægð, með svo góðum árangri að skátasvæðið hefur oft ekki dugað til. Jafnframt yrði tryggt að það svæði, sem skátahreyfingin nýtti að Úlfljótsvatni í þágu starfsemi sinnar og almannheilla, yrði ekki selt til þriðja aðila á almennum markaði.
Leit ég svo á að með því að heimila skátum afnot af Úlfljótsvatnsbýlinu ásamt lítils háttar landsvæði til viðbótar, væri borgin að viðurkenna hið mikla starf, sem skátar hafa innt af hendi í þágu reykvískrar æsku í heila öld ásamt því að stuðla að enn frekari skátastarfi sem og þjónustu í þágu almennings að Úlfljótsvatni.
Því miður féllst núverandi borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar og Besta flokksins ekki á þessa tillögu. Um tíma voru uppi hugmyndir um að selja jörðina hæstbjóðanda en ljóst er að skátastarf að Úlfljótsvatni hefði verið sett í óþolandi óvissu, hefðu þær náð fram að ganga.
Til að lenda ekki í slíkri úlfakreppu gekk skátahreyfingin til samstarfs við Skógræktarfélag Íslands og saman náðu þessir aðilar samningum við Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á Úlfljótsvatnsjörðinni. Miðað við þá stöðu að borgarstjórnarmeirihlutinn var þess albúinn að selja þann hluta jarðarinnar, sem skátar hafa haft til afnota í sjötíu ár til hvers sem hafa vildi, var þetta e.t.v. farsæl málamiðlun. Skógræktarfélagið hlýtur að vera heppilegur meðeigandi skáta að jörðinni enda hyggjast þessir aðilar standa þar sameiginlega að öflugu skógræktar- og útivistarstarfi. Óska ég Skógræktarfélaginu og Skátahreyfingunni allra heilla við áframhaldandi notkun jarðarinnar í þágu félagsmanna sinna og almennings. Landsmönnum öllum óska ég árs og friðar.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 29. desember 2012.