Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefur samþykkt, með stuðningi Vinstri grænna, að Reykjavíkurborg kaupi Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur fyrir 950 milljónir króna. Hafa ber í huga að Reykjavíkurborg á 94% í Orkuveitunni og því er hér aðeins um að ræða flutning úr einum vasa í annan.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa stutt sölu eigna Orkuveitunnar en vildu að Perlan yrði seld á frjálsum markaði með skýrum ákvæðum um nýtingu og skipulag. Fyrir rúmu ári var vissulega reynt að selja Perluna á opnum markaði en sú tilraun misheppnaðist algerlega vegna hroðvirknislegra vinnubragða borgarstjórnarmeirihlutans. Í stað þess að læra af reynslunni og vanda betur til verka, kýs meirihlutinn að flytja eignarhaldið á mannvirkinu alfarið til borgarinnar og leigja það síðan ríkinu undir náttúruminjasafn. Hefur verið unnið að málinu á miklum hraða undanfarna mánuði þar sem meirihluti borgarstjórnar vill ásamt ríkisstjórninni klára málið fyrir kosningar. Þessi mikli hraði hefur komið niður á vinnubrögðunum. Perlan var ekki byggð sem náttúruminjasafn og ljóst er að ráðast þarf í kostnaðarsamar framkvæmdir svo húsið henti til slíkra nota. Þær áætlanir, sem lagðar hafa verið fram eru ófullnægjandi til að kjörnir fulltrúar og skattgreiðendur geti áttað sig á kostnaðinum. T.d. efast ég um að sú áætlun standist að einungis kosti 100 milljónir að smíða milliloft o.fl. í þessu sérstæða húsi en samkvæmt gögnum málsins mun kostnaðurinn lenda á Reykjavíkurborg.
Í tengslum við kaupin, gaf Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, út yfirlýsingar í fjölmiðlum um að sú leið að selja Perluna til fjárfesta, hafi ekki reynst fær þar sem öll tilboð hafi verið með fyrirvara um byggingu hótels eða aðra uppbyggingu í Öskjuhlíð. Þessar fullyrðingar standast ekki því á síðasta ári barst Orkuveitunni formlegt kauptilboð í Perluna að upphæð 950 milljónir króna frá einkaaðila án fyrirvara um slíkar skipulagsbreytingar. Er þetta sama upphæð og nú er notast við í sölu hússins frá OR til borgarinnar. Umræddar fullyrðingar formanns borgarráðs um sölu Perlunnar eiga því ekki við rök að styðjast. Benda þær til að miðlun upplýsinga milli borgarráðs Reykjavíkur og stjórnar Orkuveitunnar sé stórlega ábótavant.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 28. marz 2013.