Á ársfundi Orkuveitu Reykjavíkur, sem haldinn var í gær, var framtíðarþróun fyrirtækisins tekin til sérstakrar umfjöllunar og rætt um þjónustuhlutverk þess gagnvart almenningi. Orkuveitan var byggð upp fyrir fé íbúa í Reykjavík og nágrenni og hefur rafmagnsöflun í þágu almennings hingað til verið óumdeilt grundvallaratriði í rekstri fyrirtækisins.
Meirihluti stjórnar Orkuveitunnar hefur nú falið forstjóra að ganga til samninga við meðeigendur OR í Hrafnabjargavirkjun hf. með það að markmiði að þeir eignist 60% hlut OR í félaginu.
Hrafnabjargavirkjun er verkefni á byrjunarstigi, möguleiki á vatnsaflsvirkjun í Skjálfandafljóti, sem OR hefur haft til skoðunar vegna orkuöflunar til framtíðar í þágu almennings. Umræddur virkjanakostur er í svonefndum biðflokki rammaáætlunar. Hér skal engin afstaða tekin til þess hvort þessi kostur sé hagkvæmur eða viðunandi út frá umhverfissjónarmiðum enda á eftir að rannsaka hann og meta til hlítar.
En við slíkar aðstæður er óráðlegt að meirihluti stjórnar Orkuveitunnar gefi frá sér möguleika á þátttöku í slíku verkefni og fækki þar með orkuöflunarkostum fyrirtækisins til framtíðar á sama tíma og mikil óvissa ríkir um hvernig það mun fullnægja raforkuþörf fyrir almennan markað eftir árið 2016.
Samspil jarðgufu- og vatnsaflsvirkjana ákjósanlegt
Um helmingur af aflþörf OR fyrir almennan markað kemur nú frá Landsvirkjun, samkvæmt sérstökum samningum, hinn þýðingarmesti er svokallaður tólf ára samningur, sem rennur út í árslok 2016. Verði sá samningur endurnýjaður, má búast við verulegri verðhækkun á raforkunni samkvæmt yfirlýstri stefnu Landsvirkjunar.
Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að Orkuveitan leiti nýrra leiða til orkuöflunar í því skyni að tryggja almenningi á starfsvæði sínu hagstætt orkuverð til framtíðar. Í slíkri vinnu kemur sterklega til álita að Orkuveitan auki orkuvinnslu sína og dragi úr rafmagnskaupum frá Landsvirkjun.
Orkuveitan byggir eigin rafmagnsvinnslu nánast alfarið á jarðgufuvirkjunum. Nýting jarðgufu er hins vegar ekki áhættulaus eins og skýrlega hefur komið í ljós að undanförnu. Margvísleg rök hníga að því að vatnsaflsvirkjanir eða safn jarðgufuvirkjana og vatnsaflsvirkjana sé mun heppilegri kostur til að þjóna almennum markaði en jarðgufuvirkjanir einar og sér. Komist menn að þeirri niðurstöðu að OR þurfi að auka orkuvinnslu sína eftir 2016, hlýtur að koma til álita, ekki síst út frá áhættusjónarmiðum, að slíkt verði gert með vatnsafli til að tryggja sveigjanleika í vinnslu.
Raforka í þágu almennings
Ljóst er að vinna þarf ötullega að því á næstunni að skilgreina tiltæka kosti og taka ákvörðun með það að leiðarljósi að tryggja almenningi raforku á hagstæðu verði. Takist það ekki, skapast hætta á að Orkuveitan þurfi að sæta afarkostum í raforkukaupum, sem gæti haft í för með sér verulega hækkun á raforkuverði til almennings.
Í skýrslu forstjóra Orkuveitunnar um málið kemur skýrt fram að hún þurfi að auka orkuvinnslu sína og/eða halda áfram að kaupa raforku af þriðja aðila til að fullnægja umræddri þörf. Sérstaka athygli vekur að í skýrslunni er einnig nefndur sá kostur að Orkuveitan dragi sig í hlé af almenna markaðnum, a.m.k. sem nemur orkukaupum af Landsvirkjun og láti öðrum þessa þjónustu eftir. Sú spurning vaknar því óhjákvæmilega hvort meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins sé að stíga fyrsta skrefið í þessa átt með því að fækka orkuöflunarkostum Reykvíkinga.