Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar hefur reynst fjölskyldum í Reykjavík dýrkeyptur. Fimm manna fjölskylda í Reykjavík með þrjú börn á skólaaldri mun á næsta ári greiða rúmlega 440 þúsund krónum meira í skatta og gjöld til Reykjavíkurborgar en hún gerði í upphafi yfirstandandi kjörtímabils. Viðbótarskuldir borgarsjóðs munu nema um 350 þúsund krónum á hverja fjölskyldu á þessu kjörtímabili Samfylkingar og Besta flokksins.
Almenningur borgar brúsann
Allt kjörtímabilið hefur borgarstjórnarmeirihlutinn seilst í vasa borgarbúa í stað þess að hagræða í rekstri eins og fjölskyldur og fyrirtæki hafa orðið að gera. Besti flokkurinn lofaði lækkun skatta á Reykvíkinga en fyrsta verk hans var að hækka útsvarið í lögbundið hámark. Frá því meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar tók við árið 2010 hafa skatttekjur hækkað verulega eða um 26%. Þær voru tæpir 50 milljarðar árið 2010 en eru áætlaðar 63 milljarðar á næsta ári samkvæmt áætluninni.
Útþensla kerfisins á kostnað borgarbúa er það sem stendur upp úr þegar litið er yfir verk meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar.
Meirihlutinn hefur fundið upp á mörgum nýjum verkefnum og hlaðið utan á kerfið þannig að það vex ár frá ári og kostnaður eykst. Áætlað er að rekstur málaflokka borgarinnar muni nema um 80 milljörðum króna á næsta ári en skatttekjur skili um 69 milljörðum.
Hreinar skuldir vaxa um 113%
Skuldabyrði borgarsjóðs hefur aukist mikið undir stjórn núverandi meirihluta. Samkvæmt fjárhagsáætluninni munu hreinar skuldir borgarsjóðs vegna A-hluta meira en tvöfaldast á milli áranna 2010-2014. Hreinar skuldir munu þannig vaxa úr 23 í 49 milljarða eða um 113%. Aukningin nemur 26 milljörðum króna á tímabilinu eða 6,5 milljörðum króna á ári frá árinu 2010, sem jafngildir því að allt kjörtímabilið hafi skuldir aukist um 750 þúsund kr. á klukkustund. Niðurstaðan er áfellisdómur yfir fjármálastjórn meirihlutans í borgarstjórn.
Fjárhagsáætlanir standast ekki
Reykjavíkurborg hefur verið rekin með tapi undir stjórn Samfylkingar og Besta flokksins þrátt fyrir að í fjárhagsáætlunum meirihlutans hafi verið lagt upp með háleit markmið um rekstrarafgang. Á síðasta kjörtímabili skilaði rekstur Reykjavíkurborgar hins vegar afgangi undir forystu Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir mikla erfiðleika í efnahagslífi.
Til að breiða yfir lélega fjármálastjórn leitast borgarstjórnarmeirihlutinn við að fegra niðurstöður rekstrarins með tilfærslum á rekstrareiningum. Til dæmis ætlar meirihlutinn nú að færa eignir og rekstur Bílastæðasjóðs úr B-hluta yfir í A-hluta, að því er virðist eingöngu í því skyni að fegra stöðu borgarsjóðs og gera samanburð á fjármálum borgarinnar á milli ára erfiðari en ella.
(Grein birt í Morgunblaðinu 1. nóvember 2013.)