Mörg dæmi eru um að hagsmuna Reykjavíkur sé ekki gætt nægilega vel á Alþingi. Afleiðingin er sú að mörg lagafrumvörp verða að lögum þar sem margvíslegum sköttum og skyldum er velt yfir á Reykvíkinga. Sumar þessar kvaðir eru beinar, aðrar óbeinar. Mörg dæmi eru um álögur og niðurgreiðslur, sem Reykvíkingar standa straum af í mun ríkari mæli en aðrir landsmenn.
Ég óska eftir stuðningi í 3-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna alþingiskosninga, sem fram fer 4-5. júní. Ég tel brýnt að hagsmunum Reykvíkinga sé vel sinnt á Alþingi og tel að þekking mín og löng reynsla af borgarmálum sem borgarfulltrúi muni þar koma að góðum notum.
Álagning fasteignaskatta
Nefna má álagningu fasteignaskatta sem dæmi um ósanngjarna skattlagningu, enda koma þeir nú miklu harðar niður á fasteignaeigendum í Reykjavík en flestum öðrum landsmönnum. Skattstofninn er áætlað söluverðmæti viðkomandi eignar. Slíkt fyrirkomulag hefur í för með sér ófyrirsjáanlegar sveiflur skattstofnsins og skatttekna, sem hvorki eru í samræmi við greiðslugetu skattgreiðenda né þjónustu viðkomandi Sveitarfélags. Gífurlegar verðhækkanir á fasteignum í Reykjavík hafa þannig sjálfkrafa leitt til mikilla verðhækkana á eigendur fasteigna í Reykjavík án þess að þeir fái rönd við reist. Margir Reykvíkingar sem búa í eigin húsnæði geta ekki aukið tekjur sínar og koma slíkar skattahækkanir skiljanlega afar illa niður á þeim.
Fasteignaskatti var í upphafi ekki ætlað að vera eignarskattur. Brýnt er að Alþingi endurskoði álagningu fasteignaskattsins til lækkunar, svo ekki sé hróplegt ósamræmi á álagningu hans eftir sveitarfélögum.
Sundabraut sem fyrst
Áratugum saman hafa fjárframlög til vegamála verið mun lægri en þörf hefur verið á. Síðustu ár hefur ein helsta ástæðan verið sú að vinstri meirihlutinn í Reykjavík hefur tafið eða hafnað löngu tímabærum samgönguframkvæmdum, sem ríkið er þó reiðubúið til að fjármagna. Migilvægt er að ríkið knýji Reykjavíkurborg til að standa við samninga um að gera framkvæmdir mögulegar, sem ljóst er að munu auka umferðaröryggi, draga úr mengun og greiða fyrir umferð. Dæmi um þetta eru Sundabraut og mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og bústaðavegar.
Skelfileg skuldastaða
Skuldir Reykjavíkurborgar nálgast nú 400 milljarða króna og eru komnar yfir hættumörk. Ekki verður hjá því komist að Alþingi fjalli um skuldastöðu Reykjavíkur vegna mikilvægis hennar, bæði sem höfuðborgar og þess sveitarfélags sem ríflega þriðjungur landsmanna býr.
Eyðendur og greiðendur
Mörg mál koma til kasta Alþingis, mörg eru samþykkt en öðrum synjað. Aukin ríkisútgjöld á ákveðnu sviði kunna að vera „gott mál“ fyrir suma en slæm fyrir marga aðra, þ.e. skattgreiðendur sem þurfa að borga brúsann. Brýnt er að auka ráðdeild í ríkisrekstri og eftirlit með fjárveitingum þingsins. Í hvert sinn, sem frumvarp um opinberar álögur kemur til kasta Alþingis, þarf að greina hvort og þá með hvaða hætti slíkar álögur leggjast á landsmenn eftir búsetu.
Eyðendur hafa og marga fulltrúa á Alþingi. Brýnt er að fjölga fulltrúum greiðenda þar.
