Skóla- og frístundaráð samþykkti á síðasta fundi sínum tillögu Sjálfstæðisflokksins um að auka fræðslu í grunnskólum Reykjavíkur um mikilvægi þess að halda borginni hreinni. Eru skólastjórar hvattir til að virkja nemendur í að hreinsa í kringum skólana og tína rusl í nágrenni þeirra, enda hefur slíkt ótvírætt fræðslu- og uppeldisgildi.
Brýnt er að vinna stöðugt að því að draga úr óþrifnaði í Reykjavík og virkja sem flesta í því skyni. Oft er bent á að borgin sé á meðal hinna þrifalegustu í heimi, ekki síst vegna nýtingar okkar á hreinum orkugjöfum til húshitunar og annarra daglegra þarfa. Það er vafalaust rétt en almennum þrifnaði í borginni er hins vegar víða ábótavant. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að sjá til þess að Reykjavík komist einnig í fremstu röð að þessu leyti.
Ekki síst þarf að stuðla að jákvæðu viðhorfi barna og ungmenna til umhverfismála og vinna þannig gegn óþrifnaði og sóðaskap. Í mörgum leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum, og félagsmiðstöðvum er unnið gott starf við að vekja börn til vitundar um þessi mál. Sjálfsagt er að tryggja að enginn skóli verði út undan í þeirri vinnu og skoða leiðir til þess að jákvæður áróður í þágu þessara mála verði bættur og gerður markvissari.
Í einhverjum tilvikum eru nemendur látnir þrífa í kringum skólana með reglubundnum hætti og jafnvel tína rusl í nágrenni þeirra. Nýlega var t.d. haldinn sérstakur hreinsunardagur í Hagaskóla þar sem nemendur létu til sín taka og tíndu rusl víða í hverfinu. Þetta fyrirmyndarverkefni hafði ótvírætt fræðslu- og uppeldisgildi og vakti mikla athygli og ánægju meðal íbúa hverfisins.
Á síðasta kjörtímabili samþykkti menntaráð að árlega skyldi efnt til svokallaðra umhverfisdaga í grunnskólum Reykjavíkur, sem skilgreindir yrðu sérstaklega sem grænir dagar á skóladagatali. Annar dagurinn skyldi tengdur hreinsun og fegrun umhverfisins og er ákjósanlegt að tengja slík hreinsunarverkefni skóla þessum degi.
– – –
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 23. maí 2012.