Skömmu eftir fæðingu Ingibjargar hóf Hákon verslunarrekstur og þilskipaútgerð og var jafnframt með skip í ferðum á milli landa. Þegar Ingibjörg var á níunda ári fórst Hákon ásamt flestum úr áhöfn sinni þegar skip hans brotnaði á Mýrdalssandi á heimleið frá Kaupmannahöfn. Móðir hennar hélt rekstri verslunarinnar á Bíldudal áfram næstu árin og lagði mikla áherslu á að mennta börnin. Fjölskyldan fluttist síðar til Reykjavíkur þar sem Ingibjörg gekk í Kvennaskólann og lauk þaðan prófi 1882. Næstu ár stundaði hún nám hjá Þóru Pétursdóttir biskups en sigldi árið 1884 til Kaupmannahafnar þar sem hún stundaði nám næstu tíu árin, einkum á sviði uppeldis- og kennslumála.
Brautryðjandi í leikfimikennslu
Ingibjörg varð fyrsti Íslendingurinn til að ljúka leikfimikennaraprófi en það gerði hún árið 1892 frá Poul Petersens Institut. Eftir heimkomu til Íslands hóf hún kennslu í fimleikum við Barnaskólann en sú námsgrein hafði ekki verið kennd þar fram að þessu. Lagði hún ætíð mikla áherslu á mikilvægi góðrar leikfimikennslu fyrir börn og ungmenni og sá til þess að henni væri vel sinnt í Kvennaskólanum. Var það henni mikið metnaðarmál að leikfimihús yrði reist við Kvennaskólann en það hefur ekki enn orðið að veruleika.
Þegar Ingibjörg kom heim frá námi 1893 hóf hún kennslu við Barnaskóla Reykjavíkur, Kvennaskólann og í aukatímum. Helstu kennslugreinar voru danska, heilsufræði, teiknun, hannyrðir, leikfimi og dans og kom brátt í ljós að Ingibjörg var góður kennari.
Árið 1901 fór Ingibjörg enn utan til náms og dvaldi í tvö ár í Þýskalandi og Sviss til að kynna sér helstu nýjungar í kennslumálum. Eftir heimkomuna kenndi Ingibjörg áfram við Barnaskólann og Kvennaskólann.
Skólastjóri Kvennaskólans
Þegar Þóra Melsteð, skólastjóri Kvennaskólans, lét af störfum árið 1906 tók Ingibjörg við stjórn skólans og gegndi starfinu til æviloka eða í 35 ár. Eitt fyrsta verkefni Ingibjargar var að leysa húsnæðisvanda skólans en það var gert með byggingu húss við Fríkirkjuveg. Fluttist skólinn þangað árið 1909 og bjó Ingibjörg sjálf í skólanum.
Kvennaskólinn þótti vera til fyrirmyndar í starfsháttum undir stjórn Ingibjargar. Áhersla var lögð á reglusemi og nákvæmrar hlýðni krafist við settar reglur en Ingibjörg gekk sjálf á undan með góðu fordæmi. Hún var þekkt fyrir stjórnsemi og jákvæðan aga, sköllin á göngum Kvennaskólans hljóðnuðu þegar hún gekk um. Námsmeyjarnar vissu að góðvild bjó að baki strangleikanum og jafnframt að góðlátleg kímni féll í góðan jarðveg hjá henni.
Félagsstarf kvenna í Reykjavík
Ingibjörg var virk í félagslífi Reykjavíkur og drifkraftur í ýmsum samtökum kvenna. Hún starfaði í Thorvaldsenfélaginu, tók þátt í leiksýningum á vegum þess og var í stjórn barnauppeldissjóðs félagsins. Hún starfaði einnig í Hinu íslenska kvenfélagi og var einn af stofnendum Lestrarfélags kvenna 1911 og sat í fyrstu stjórn þess. Hún átti einnig þátt í stofnun Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1913 og sat þar einnig í stjórn.
Í júní 1915 komu fulltrúar tólf kvenfélaga í Reykjavík saman á fundi og ræddu hvernig ætti að fagna því að 19. júní hefði Alþingi samþykkt að þær fengju stjórnmálaleg réttindi til jafns við karla. Sú hugmynd var samþykkt að konur skyldu gangast fyrir byggingu sjúkrahúss og það yrði sem bautasteinn fyrir nýfengnum réttindum.
Barátta fyrir Landspítala
Til að fagna réttarbótinni efndu konurnar til hátíðar við setningu þingsins hinn 7. júlí. Fjöldi kvenna safnaðist saman við Miðbæjarskólann og gekk fylktu liði inn á Austurvöll. Nefnd fimm kvenna fór inn í þinghúsið og hafði Ingibjörg orð fyrir þeim. Í ávarpi til þingheims vottaði hún þingmönnum gleði og þakklæti kvenna fyrir nýfengin réttindi. Að lokinni athöfn í þinghúsi hófst hátíð á Austurvelli þar sem Ingibjörg lýsti yfir því í heyranda hljóði fyrir hönd kvennasamtaka í Reykjavík að réttarbótarinnar yrði minnst með fjársöfnun til byggingar Landspítala. Þörfin var brýn og skortur á sjúkrarými brann mjög á konum.
Sjálfgefið var að Ingibjörg yrði formaður sjóðstjórnarinnar, Landspítalasjóðs Íslands. Jafnframt var stofnaður Minningargjafasjóður Landspítalans til styrktar fátækum, sem þyrftu á spítalavist að halda, og var Ingibjörg einnig formaður hans. Þessi sjóður sinnti afar mikilvægu starfi enda hafði almannatryggingum ekki verið komið á fót þegar hér er komið sögu. Var Ingibjörg formaður beggja sjóða til æviloka.
Beitti hún áhrifum sínum fyrir málinu hvar sem hún gat, m.a. á Alþingi. Var hún skipuð í nefnd til að ákveða lóð, stærð og byggingargerð væntanlegs Landspítala og síðar í byggingarnefnd spítalans.
Ingibjörg vann þrotlaust að fjársöfnun fyrir Landspítalann og var 19. júní ætíð helsti söfnunardagur sjóðsins. Þegar upp var staðið dugðu framlög úr Landspítalasjóðnum til að standa straum af fjórðungi kostnaðar vegna áætlaðs stofnkostnaðar spítalans. Telur einhver að það væri áhlaupsverk að safna svo stórum upphæðum fyrir opinberri byggingu með frjálsum framlögum landsmanna á okkar dögum?
Við vígslu spítalans fengu aðstandendur Landspítalasjóðsins miklar þakkir hvaðanæva af landinu. Sagt var að framlag sjóðsins hefði ráðið úrslitum en ekki skipti minna máli sú barátta fyrir málinu, sem Ingibjörg leiddi á Alþingi. Ekki fengu þessar konur síður þakkir fyrir það að hafa opnað Landspítalann fyrir fátæklingum.
Eftir að spítalinn var risinn og tekinn til starfa 1930 hélt Landspítalasjóðurinn áfram starfsemi og var veitt úr honum síðar til byggingar annarra húsa spítalans.
Fyrsti þingmaður úr hópi kvenna
Ingibjörg hafði verið svo sjálfkjörin í forystusveit í Landspítalamálinu að það kom nokkurn veginn af sjálfu sér að hún skipaði efsta sæti á landslista kvenna til Alþingis árið 1922. Hún var þá þegar orðin landskunn sem skólastjóri Kvennaskólans og fyrir önnur störf að menntamálum auk þess að vera helsti forsvarsmaður Landspítalasjóðsins. Enginn kjósandi efaðist um að hún myndi beita kröftum sínum á Alþingi í þágu þessara mála.
Það gustaði um Ingibjörgu á Alþingi eins og við var að búast. Ekki er víst að það hafi verið þægilegt að vera ein kvenna á þingi og víst er að hún mátti þola athugasemdir og áhrínsorð um kynferði sitt. Til samanburðar má nefna að þegar konur buðu fram Kvennalistann 1908 náðu þær fjórar kjöri og höfðu því styrk hver af annarri. Í blaðagrein frá 1930 fjallaði Ingibjörg um þetta og sagði þá m.a.: „Fyrstu konurnar, brautryðjendurnir, verða auðvitað fyrir ýmsu hnjaski aðeins vegna þess að þær eru konur – en slíkt má ekki setja fyrir sig. Þegar konunum fjölgar á Alþingi Íslendinga hverfur það að ráðist sé á þær sérstaklega af því að þær eru konur.“
Réttur stúlkna til bóknáms
Á Alþingi beitti Ingibjörg sér fyrir fjölmörgum málum og voru mörg þeirra síður en svo „sérmál kvenna“. Auk byggingar Landspítalans má t.d. nefna bætt húsakynni og afnám óhollra íbúða. En það stóð henni nær að berjast gegn óréttlæti í löggjöf, sem bitnaði á konum, og beitti hún sér t.d. fyrir réttarbótum vegna launamála og hjúskapar þeirra. Hún var formaður menntamálanefndar um hríð og barðist fyrir því að stúlkur öðluðust sama rétt og piltar til að ganga í menntaskóla. Í fyrstu mætti hún skilningsleysi margra þingmanna en hafði sigur að lokum. Töldu þessir þingmenn að menntaskólar væru fyrst og fremst fyrir pilta en stúlkur ættu að fara í húsmæðraskóla ef þær vildu mennta sig frekar. Tók hún margar rimmur um þetta mál í þingsölum við Jónas frá Hriflu og gaf hvorugt nokkuð eftir. Við andlát Ingibjargar skrifaði Jónas um hana með virðingu í minningargrein.
Ingibjörg sat á átta þingum
Nokkru eftir að hún varð þingmaður gekk hún til samstarfs við Íhaldsflokkinn, síðar Sjálfstæðisflokkinn. Var hún gagnrýnd fyrir það en eflaust taldi hún sig eiga meiri möguleika á því að vinna baráttumálum sínum framgang í stórum flokki frekar en þingmaður utan flokka. Hún leit jafnframt á sig sem þingmann allra landsmanna, en ekki einungis málsvara kvenna, og sætti hún einnig ámæli fyrir það.
Ingibjörg lést 30. október 1941. Á Alþingi kvaddi forseti sameinaðs þings, Haraldur Guðmundsson, hana m.a. með þessum orðum: „Hún mun jafnan verða talin í fremstu röð þeirra kvenna er tóku að sinna almennum þjóðmálum með fullum réttindum eftir stjórnarskrárbreytinguna 1915 þá er konum var veittur kosningaréttur.“
Brautryðjandi
Ingibjörg var virðuleg og skyldurækin kona. Hún giftist ekki og eignaðist ekki börn en varði kröftum sínum óskiptum í hin fjölmörgu þjóðþrifaverkefni, sem hún tók sér fyrir hendur. Henni er lýst svo að hún væri fríð kona og gervileg. Hún þótti einörð og það sópaði að henni hvar sem hún fór.
Ljóst er að Ingibjörg er í hópi merkustu Íslendinga á síðustu öld og ættu fleiri að þekkja sögu hennar en raun ber vitni. Hún var sannkallaður brautryðjandi á mörgum sviðum; í menntamálum, heilbrigðismálum, réttindamálum kvenna, íþróttamálum og menningarmálum. Gísli Jónsson íslenskukennari skrifaði m.a. um hana að hún hefði í glæsileik sínum og öðrum mannkostum árum saman verið einingartákn íslenskra kvenna.
—
Þessi grein birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 30. október 2011. Við ritun hennar var einkum stuðst við grein Bjargar Einarsdóttur um Ingibjörgu, sem birtist í öðru bindi greinasafns Bjargar „Úr ævi og starfi íslenskra kvenna“.