Á meðan starfsfólk grunnþjónustu Reykjavíkurborgar kvartar undan sívaxandi álagi og skólabyggingar liggja undir skemmdum vegna viðhaldsleysis, forgangsraðar meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins fjármunum í þágu gæluverkefna sinna. Mörg þessara verkefna snúast um að teppa mikilvægar umferðargötur og sjá til þess að það taki Reykvíkinga lengri tíma en áður að komast á milli staða. Með því að lengja tímann í umferðinni, styttist sá tími sem fólk hefur til frjálsrar ráðstöfunar, t.d. til frístundaiðkunar eða samverustunda með fjölskyldunni.
Klúður við Hofsvallagötu
Hofsvallagötuklúðrið er dæmi um þetta en ein afleiðing þess hefur auk þess orðið sú að beina umferð inn í nærliggjandi íbúahverfi.
Fjölmennur íbúafundur var haldinn í Vesturbænum í síðasta mánuði um breytingarnar á Hofsvallagötu. Æðstu yfirmenn verklegra framkvæmda hjá borginni, Jón Gnarr borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs, sáu ekki ástæðu til að sækja fundinn og hlusta þar á sjónarmið íbúa. Þess í stað lýsti einn æðsti embættismaður borgarinnar yfir því í upphafi fundar að Jón Gnarrr borgarstjóri bæri enga ábyrgð á framkvæmdunum. Varla er hægt að finna skýrara dæmi um það hvernig Jón Gnarr smeygir sér markvisst undan þeirri ábyrgð, sem fylgir starfi borgarstjóra.
Breytingar á Borgartúni
Borgaryfirvöldum hafa borist ýmsar athugasemdir frá hagsmunaaðilum varðandi yfirstandandi breytingar á Borgartúni. En með breytingunum er ekki gert ráð fyrir útskotum fyrir biðstöðvar strætisvagna við götuna og þarf því að stöðva þá á miðri akrein með tilheyrandi umferðartöfum. Þá hafa atvinnurekendur við Borgartún lagst gegn því að aðkoma að fyrirtækjum þeirra sé þrengd í tengslum við breytingarnar og bílastæðum fækkað enda ekki bætandi á hinn mikla bílastæðaskort sem er nú þegar í götunni.
Ástæða er fyrir borgaryfirvöld að taka tillit til þessara athugasemd enda gegnir Borgartún mikilvægu hlutverki fyrir atvinnulíf borgarinnar og raunar alls landsins. Þrátt fyrir að málið hafi verið mikið í fréttum að undanförnu kemur í ljós að borgarstjóri þekkir lítið til þess og virðist hafa takmarkaðan áhuga á sjónarmiðum hagsmunaaðila þegar hann er spurður út í það í Morgunblaðinu sl. þriðjudag.
Borgarstjóri er framkvæmdastjóri
Lengi hefur verið litið svo á að borgarstjórinn í Reykjavík gegni þrenns konar meginhlutverki. Hann sé framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar, opinber fulltrúi borgarinnar og pólitískur leiðtogi meirihlutans. Þrátt fyrir að ólíkir menn hafi gegnt embættinu, hefur ætíð verið skýrt, þar til nú, að borgarstjóri beri endanlega ábyrgð á framkvæmdum borgarinnar og svari fyrir þær gagnvart borgarbúum. Af þessu leiðir að borgarstjóri þarf að vera vel inni í helstu framkvæmdum hverju sinni og reiðubúinn að hlusta á athugasemdir borgarbúa varðandi þær.
Mörg fleiri dæmi er hægt að nefna um að þessi framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar lætur ekki fjölmiðla ná í sig langtímum saman út af ákveðnum málum eða svarar út í hött. Þannig víkur borgarstjóri sér ítrekað undan ábyrgð sinni.
Á kjörtímabilinu hafa Samfylkingin og Besti flokkurinn breytt stjórnskipulagi ráðhúss Reykjavíkur í þeim tilgangi að losa sitjandi borgarstjóra undan skyldum sínum. Í meginniðurstöðum sex mánaða gamallar skýrslu úttektarnefndar á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar kemur fram að óheppilegt sé að litið sé svo á að það sé að einhverju leyti valkvætt með hvaða hætti æðsti embættismaður borgarinnar (borgarstjóri) hagi aðkomu sinni að því starfi.
Þessi fráleita stjórnsýsla er í boði Besta flokksins og Samfylkingarinnar.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 17. október 2013.